Skrá yfir prentaðar íslenzkar bækur og handrit í Stiptisbókasafninu í Reykjavík

Árið 1848 var Jón Árnason ráðinn bókavörður við Stiftsbókasafnið, er síðar var nefnt Landsbókasafn, og gegndi þeirri stöðu samhliða öðrum störfum þar til hann fór á eftirlaun árið 1887. Hann var fyrsti starfsmaður safnsins, en áður hafði stjórnarnefnd safnsins sinnt því í hjáverkum.

Safnið var formlega sett á fót árið 1818 og opnað til notkunar árið 1825. Það var til húsa á Dómkirkjuloftinu allt fram til 1881 þegar það fluttist í Alþingishúsið. Á Dómkirkjuloftinu deildi safnið húsnæði með Forngripasafninu sem var stofnað árið 1863, en Jón hafði einnig umsjón með því ásamt Sigurði Guðmundssyni málara. 

Aðstaða safnsins var heldur bágborin á Dómkirkjuloftinu og kvartaði Jón árum saman yfir því og öðru í bréfum til stjórnarnefndar safnsins. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst Jóni að koma góðu skipulagi á safnið og árið 1881 áætlaði hann að safnkosturinn væri um 13 þúsund bindi.

Jón sinnti hvers kyns störfum á safninu, enda var hann eini starfsmaður þess fram til 1882 en naut þó aðstoðar Páls Pálssonar stúdents um skeið. Safnið var opið tvisvar í viku, í hádeginu á laugardögum og miðvikudögum, og sinnti Jón þá útlánum en einnig röðun, þrifum og öðru. Opnunartíminn var þó lengdur eftir flutning safnsins í Alþingishúsið 1881. Þá tók Jón á móti bókagjöfum, þar á meðal frá útlöndum, en margar stofnanir og einstaklingar sendu safninu rit, sérstaklega í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Eftir Jón liggja tvær prentaðar skrár (1874), ein skrá í handriti (1849) og fjölmargar ritaukaskrár að auki í skjalasafni safnsins.

Skrá yfir prentaðar íslenzkar bækur og handrit í Stiptisbókasafninu í Reykjavík fékk útgáfustyrk þjóðhátíðarárið 1874. Í skránni var prentuðum bókum skipt upp í tíu efnisflokka en handritum skipað upp eftir stærð og var handritaskráin rúmur helmingur verksins og náði yfir 539 bindi í handritasafninu. Skráin er ásamt ýmsum gögnum tengdum Jóni Árnasyni á sýningu í Þjóðarbókhlöðu til 9. ágúst.

Bókina má skoða hér

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Leikmynd og búningar Lothars Grund við Spádóminn

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall