Halla Þórlaug Óskarsdóttir hlýtur Maístjörnuna 2020

08.06.2021

Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni þriðjudaginn 8. júní. Rithöfundasamband Íslands stendur að verðlaununum ásamt Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2020 hlýtur Halla Þórlaug Óskarsdóttir fyrir bókina Þagnarbindindi.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

"Þagnarbindindi er áhrifarík ljóðsaga sem sver sig í ætt við ýmis eftirtektarverð verk frá síðasta áratug, jafnt innlend sem erlend, þar sem konur skrifa á hugdjarfan og hispurslausan hátt um sára og erfiða reynslu. Hér tekst skáldið meðal annars á við ástarsorg, móðurmissi og móðurhlutverkið og nær að draga upp margræða mynd af reynsluheimi ungrar konu sem er að stíga inn í fullorðinsárin og takast á við áföll og samskiptaerfiðleika. Útkoman er eftirminnileg bók sem sker sig úr, þökk sé eftirminnilegu myndmáli, óvenjulegri byggingu og frumlegum texta sem rambar á mörkum dagbókarskrifa, brotakenndrar frásagnar, ljóðtexta og ritgerðar." 

Halla Þórlaug Óskarsdóttir er fædd í Reykjavík 1988 og alin upp í Þingholtunum. Hún lauk BA prófi úr myndlist við Listaháskóla Íslands 2012 og MA prófi úr ritlist við Háskóla Íslands árið 2014. Halla Þórlaug hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1, sem umsjónarmaður Víðsjár, Tengivagnsins og Bókar vikunnar auk þess að fjalla um einstaka bækur í þættinum Orð um bækur. Fyrir ljóðsögu sína Þagnarbindindi hlaut Halla nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2020. Halla Þórlaug hefur samið verk fyrir leiksvið og útvarp; Ertu hér? í samvinnu við Ásrúnu Magnúsdóttur, sviðsverk á dagskrá Borgarleikhússins 2021. Hún pabbi, í samvinnu við Trigger Warning, sviðsverk sýnt í Borgarleikhúsinu 2017 og Svefngrímur, útvarpsleikrit flutt á Rás 1 2016

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2020 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Sverrir Norland fyrir hönd Rithöfundasambandsins og María Logn Kristínardóttir Ólafs­dótt­ir fyrir hönd Landsbókasafnsins. Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar.

Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum verðlaunahafans var opnuð af þessu tilefni.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall