Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar og ekkjufrúar hans Valgerðar Jónsdóttur, Lbs 26 fol.

Í handritinu Lbs 26 fol. er „Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar og ekkjufrú hans Valgerðar Jónsdóttur“. Jafnan er þó talað um bókina sem bréfabók Valgerðar þar sem stærsti hluti hennar inniheldur bréf frá henni. Bókin barst til Landsbókasafns ásamt öðrum handritum, tæplega 400 talsins, sem Valgerður seldi safninu árið 1846. Teljast kaupin á þeim handritum stofninn að handritasafni Landsbókasafns.

Valgerður Jónsdóttir (1771–1856) var aðeins 18 ára gömul þegar hún giftist Hannesi, biskupi í Skálholti. Hann stóð þá á fimmtugu og var því 32 ára aldursmunur á þeim hjónum.  Hannes féll frá eftir sjö ára hjónaband og Valgerður varð ekkja 25 ára gömul. Í tíu ár stóð hún ein fyrir stóru búi í Skálholti en átti auk þess yfir 20 jarðir sem hún leigði út til ábúenda. Þá átti hún rekaítök í fjörum víðs vegar um land og nokkra báta sem hún gerði út.

Elstu bréfin í bókinni eru skrifuð snemma árs 1796 og fram að andláti Hannesar í ágúst það ár eru bréfin frá honum. Eftir lát hans tók Valgerður við opinberum bréfaskiptum og í bókinni eru afrit af ríflega 450 bréfum hennar til 146 einstaklinga, bæði viðskiptabréfum og einkabréfum, fram til ársins 1806.  Bókin þykir einstök heimild þar sem afar fátítt er að bréfabækur efri stéttar kvenna frá þessum tíma hafi varðveist.

Bókin er ekki rituð með hendi Valgerðar sjálfrar heldur er það rithönd Steingríms Jónssonar sem má sjá á langflestum bréfunum. Þó var Valgerður vel skrifandi og varðveitt eru bréf frá henni sem hún ritar eigin hendi. Steingrímur var skrifari Hannesar og kennari í Skálholti. Hann sigldi til Kaupmannahafnar árið 1800 og hefur Valgerður líklega stutt hann fjárhagslega til náms. Árið 1806 gengu þau Valgerður og Steingrímur í hjónaband og hann varð síðar biskup yfir Íslandi. Síðasta bréfið í bókinni er ritað mánuði fyrir brúðkaup þeirra og Valgerður hefur því líklega hætt öllum opinberum viðskiptum eftir að hún gekk í hjónaband í annað sinn.

Bréfabók Valgerðar er nú á sýningu í safninu sem sett hefur verið upp í tilefni þess að 250 ár eru liðin frá fæðingu Valgerðar. Bókin hefur einnig verið mynduð og er aðgengileg á handrit.is.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall