Áritaðar bækur frá Halldóri Laxness til Nikólínu Árnadóttur

09.01.2023

Í dag afhentu Sverrir Guðmundsson og Þórdís Ingvarsdóttir Landsbókasafninu þrjár bækur eftir Halldór Laxness sem höfundurinn áritaði til Nikólínu Árnadóttur fyrir tæplega 100 árum síðan.  

Í Grikklandsárinu, fjórðu æskuminningarbók Halldórs, sem út var gefin 1980, kemur fram að Nikólína átti stóran þátt í tilurð bókanna Þú vínviður hreini og Fuglinn í fjörunni sem seinna fengu sameiginlega nafnið Salka Valka.

Áritanirnar staðfesta þetta, einkum áritunin á Vínviðnum þar sem Halldór þakkar Nikkelín eins og hún var kölluð fyrir sálminn, þar sem orðin Þú vínviður hreini koma fyrir, og truntuna sem Halldór skapar persónuna Þórdísi Sigurkarlsdóttur, Toddu truntu, úr eftir sögum sem Nikólína sagði af einstaklingum og atburðum úr Hjálpræðishernum á Ísafirði.

Nikólína giftist fyrst Jóhanni Jónssyni skáldi sem var náinn vinur Halldórs Laxness og varð Nikólína góð vinkona Halldórs á árunum eftir 1920 þegar Halldór var að þroskast sem rithöfundur. Bækurnar þrjár sem Halldór gaf henni áritaðar eru Kaþólsk viðhorf frá 1925, Þú vínviður hreini 1931 og Fuglinn í fjörunni 1932. Áritanirnar eru mjög merkilegar því þær staðfesta áhrif Nikólínu á tilurð sögunnar um Sölku Völku sem voru afgerandi og veita jafnframt innsýn í vinnubrögð Halldórs við ritun sögunnar.

Eftir að Jóhann skildi við Nikólínu giftist hún Sören Sörensen lækni sem eftir andlát Nikólínu 1935 varðveitti eigur hennar uns yfir lauk. Þá komust bækurnar í eigu erfingja Sörens sem nú hafa ákveðið að gefa þær Landsbókasafninu.

Á myndinni eru Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, Steingrímur Jónsson, sem hafði frumkvæði að afhendingunni, Sverrir Guðmundsson og Þórdís Ingvarsdóttir.

 


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall