Dárahöfuð og brotnir stafir, JS 27 fol.

Handritið JS 27 fol. er sögubók, skrifuð um 1670. Hún inniheldur einkum riddara- og fornaldarsögur, eða „Nokkrar fróðlegar fornmannasögur til leyfilegrar skemmtunar“ eins og segir á titilsíðu. Band handritsins er líkast til upprunalegt skinnband með tréspjöldum og spennum og í því má sjá skreytta upphafsstafi, skrautbekki og bókahnúta. Upphafsstafir eru í rómönskum stíl, með áberandi laufteinungum sem hringast um stafina sem  dregnir upp með bleki og lagðir fjórum litum. Bókahnútar eru ýmist með fléttumynstri eða mynda eins konar lykkjuverk. Handritið er að mestu skrifað með einni hendi, fyrir utan nokkur yngri blöð sem bætt hefur verið við síðar.

Þegar handritið var skráð í upphafi 20. aldar var það talið skrifað af Hannesi Gunnlaugssyni (um 1640–1686) bónda og bartskera í Reykjarfirði í Norður-Ísafjarðarsýslu. Var þessi ályktun byggð á því að í skreytingu á blaði 314r stendur „Hannes Gunnlaugsson braut stafina“ og var það talið til marks um að Hannes hafi skrifað sjálft handritið. Jónas Kristjánsson handritafræðingur (1924–2014) færði hins vegar rök fyrir því að þessi orð merktu að Hannes hefði dregið og skreytt upphafsstafi í handritinu. Samanburður við önnur handrit styrkir þessa tilgátu, en fleiri handrit eru varðveitt sem Hannes ýmist skrifaði eða skreytti. Taldi Jónas líklegt að sjálft handritið væri skrifað af Magnúsi Þórólfssyni (um 1620/1630–1667) sem var einn af skrifurum Magnúsar Jónssonar (1637–1702) digra í Vigur.

Handritið er nú á sýningunni Pappírsslóð rakin sem stendur yfir í Þjóðarbókhlöðu. Er þar fjallað um vatnsmerki í 17. aldar pappírshandritum en rannsóknir á þeim geta gefið upplýsingar um uppruna og aldur pappírs. Vatnsmerki sjást sjaldnast með berum augum, heldur koma í jós þegar pappírinn er gegnumlýstur.  Í JS 27 fol., sem telur 381 blað, eru tvö vatnsmerki ásamt einu mótmerki. Annað vatnsmerkið sýnir dárahöfuð með bjöllukraga.  Í mótmerkinu koma fyrir bókstafirnir ICO sem líklega er fangamark pappírsgerðarmannsins I. Conard sem starfaði í Normandí í Frakklandi upp úr miðri 17. öld.  Pappírinn hefur því borist til Íslands fljótlega eftir að hann var framleiddur þar sem vestfirskir menn skrifuðu á hann sögur og skreyttu.

Handritið má skoða hér. 

Heimildir:

Gaudriault, Raymond. Filigranes et autres caractéristiques des papiers fabriqués en France aux XVIIe et XVIIIe siècles. Paris, 1995.

Halldóra Kristinsdóttir, Jón Kristinn Einarsson og Rannver H. Hannesson. „Manuscript Production in 17th-Century Iceland. The Case of Hannes Gunnlaugsson.“ Í Paper Stories. Paper and Book History in Early Modern Europe. Væntanlegt 2023.

Jónas Kristjánsson. „Hannes Gunnlaugsson braut stafina.“ Í Afmælisrit til dr. phil. Steingríms J. Þorsteinssonar 2. júlí 1971. Reykjavík, 1971. Bls. 88–96.  

Páll Eggert Ólason. Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins. 2. bindi. Reykjavík, 1927.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall