Stofngögn Kvennasögusafns
Sýning í Þjóðarbókhlöðu
13.01.2025 - 13.02.2025

Kvennasögusafn Íslands var stofnað 1. janúar 1975 af þremur konum: Önnu Sigurðardóttur, Elsu Miu Einarsdóttur og Svanlaugu Baldursdóttur. Það var stofnað á heimili Önnu, á fjórðu hæð í blokk á Hjarðarhaga 26 í Reykjavík og starfaði hún þar sem forstöðukona Kvennasögusafns í 20 ár.
Kvennasögusafnið spratt upp sem andsvar við hefðbundinni söguskoðun, sem lagði mesta áherslu á afrek karla. Markmiðið var að draga fram sögu kvenna og framlag þeirra til samfélagsins í gegnum aldirnar, svo ekki verði áfram hægt að falsa söguna með þögninni.
Frá upphafi var markmið þess að það fengi skjól hjá stóru opinberu safni, helst í Þjóðarbókhlöðunni sem þá var í byggingu. Eftir þrotlausa baráttu kvenna og félagasamtaka þeirra varð sá draumur að veruleika. Þegar Þjóðarbókhlaðan opnaði dyr sínar 1. desember 1994 var frátekið pláss fyrir Kvennasögusafn á 4. hæð. Kvennasögusafn hefur starfað innan Landsbókasafnsins síðan, sem séreining í stærra safni, með einn starfsmann á launum og þrjár manneskjur í stjórn. Safnið vinnur áfram í anda þeirrar stefnu frá 1975 að auka sýnileika kvenna á Íslandi í þjóðarsögunni með upplýsingagjöf, sérstökum verkefnum og söfnun einkaskjala.
Örsýning hefur verið sett upp í safninu á stofngögnum Kvennasögusafns.