Fjögur handrit úr safni Landsbókasafns Íslands til sýnis í Eddu

14.05.2025

Handritasýningin Heimur í orðum var opnuð í Eddu í nóvember á síðasta ári. Reglulega þarf að skipta út handritum á sýningunni til þess að tryggja sem best varðveislu þeirra. Handritasafn Landsbókasafns er samstarfsaðili Árnastofnunar og lánar handrit af og til á sýninguna. Nú eru fjögur handrit úr eigu handritasafns á sýningunni og hægt að skoða þau þar næstu þrjá mánuðina.

Handritin eru á þeim hluta sýningarinnar sem fjallar um eðli mannsins, í kaflanum „Yst sem innst“. Í tveimur þeirra, ÍBR 3 8vo og Lbs 1228 9vo, má finna Margrétar sögu en heilög Margrét var verndardýrlingur kvenna í barnsnauð. Handrit sem innihalda söguna eru oftast smágerð sem auðveldaði ljósmæðrum að ferðast með þau og sængurkonum að hafa þau nærri sér. Ekki er vitað hver skrifaði Lbs 1228 8vo en það er talið skrifað um 1775. Nafngreind kona sem við vitum þó engin deili á, Sigríður Jónsdóttir, skrifaði Margrétar sögu í ÍBR 3 8vo árið 1773. Aftan við söguna ritar hún orðin „Þess[i] blöð á ég Sigríður Jónsdóttir. Skrifað á því ári 1773.“

Í JS 109 8vo er fræðslutexti í samtalsformi þar sem lærisveinn spyr að ýmsu sem varðar getnað og fæðingu og meistari svarar. Handritið er skrifað á fyrstu árum 18. aldar af óþekktum skrifara. Loks má sjá á sýningunni fallega skreytt handrit Jakobs Sigurðssonar (1727–1779), Lbs 781 4to, um stjörnuspeki og lófalestur, skrifað árið 1759. Jakob er jafnan talinn einn mesti listaskrifari síns tíma. Þrátt fyrir lítil efni og enga menntun fékkst hann þó nokkuð við uppskrift handrita og eru mörg þeirra listilega skreytt.

Eftirfarandi myndir af handritunum tók Sigurður Stefán Jónsson ljósmyndari á Árnastofnun.

JS 109 8vo Lbs 1228 8voIBR 3 8voLbs 781 4to


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall