Þórdís Gísladóttir hlýtur Maístjörnuna 2024

14.05.2025

Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni miðvikudaginn 14. maí. Rithöfundasamband Íslands stendur að verðlaununum ásamt Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2024 hlýtur Þórdís Gísladóttir  fyrir ljóðabókina Aðlögun.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„Í Aðlögun Þórdísar Gísladóttur er atferli nútímamannsins skoðað frá ýmsum sjónarhornum bæði af kímni og alvöru, í fortíð og framtíð, en þó mest í þessari fremur hversdagslegu nútíð sem flest okkar kalla daglegt líf. Segja má að bókin sé eins konar athugasemdaskýrsla um manneskjuna, áskoranir hennar og ófullkomleika, því „hálfvelgja og athafnaleysi eru ekki viðurkennd störf“, eins og segir á einum stað og „lífveran er hegningarhús úr frumum“, eins og segir á öðrum. Stíllinn er kjarnyrtur fremur en lýrískur og heldur vel utan um efnið í ljúfsárri og fyndinni bók sem fjallar jafnt um hið fallega og hið óþolandi sem við þurfum oftar en ekki að laga okkur að. Ljóðin eru beitt, háðsk og snerta lesandann á djúpan og óvæntan hátt.“

Þórdís Gísladóttir er fædd 14. júlí 1965 og ólst upp í Hafnarfirði. Hún lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands, stundaði MA-nám í bókmenntum og lauk filosofie licentiat-prófi í norrænum fræðum frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Þórdís Gísladóttir býr í Norðurmýri í Reykjavík.

Auk ritstarfa hefur Þórdís kennt og flutt fyrirlestra við skóla á Íslandi og erlendis, skrifað greinar í íslensk og erlend blöð og tímarit, gert þætti fyrir RÚV, skrifað bókmenntagagnrýni, ritstýrt tímaritinu Börn og menning og verið verkefnastýra hjá Háskóla Íslands og Norrænu ráðherranefndinni.

Þórdís skrifar jöfnum höndum fyrir börn og fullorðna og hefur einnig samið námsefni og skrifað unglingabækur í samstarfi við Hildi Knútsdóttur. Þá hefur hún þýtt fjölda verka.

Fyrsta ljóðabók Þórdísar, Leyndarmál annarra, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010, eftir það hefur hún sent frá sér ljóðabækur, skáldsögu, smásagnasafn, barna- og unglingabækur og kennslubækur. Þórdís hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna fyrir bókina Randalín og Mundi, hún hefur fengið tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, íslensku þýðingarverðlaunanna og ljóðabókin Óvissustig (2016) hlaut tilnefningu til Maístjörnunnar.

Við þetta tækifæri hefur verið opnuð í safninu örsýning á bókum Þórdísar Gísladóttur.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2024 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Sölvi Björn Sigurðsson fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Kamilla Einarsdóttir fyrir hönd Landsbókasafnsins.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall