Í vor undirrituðu Leikminjasafnið og Þjóðleikhúsið samstarfssamning um birtingu á leikskrám leikhússins á vefnum timarit.is. Tilefnið er 75 ár afmæli Þjóðleikhússins sem opnaði dyr sínar sumardaginn fyrsta árið 1950. Nú hafa leikskrár frá átján fyrstu leikárunum ratað á vefinn. Markmiðið er að birta leikskrár frá fyrstu fimmtíu leikárunum á þessu ári.
Kjörgripur mánaðarins er leikskrár Þjóðleikhússins og í tilefni fimmtíu ára afmælis Kvennaársins er viðeigandi að draga fram leiksýningu þar sem konur léku aðalhlutverkið, reyndar öll hlutverkin, leikverkið var þýtt af konu og leikskránni einnig ritstýrt af sömu konu.
Læðurnar eftir finnska höfundinn Walentin Chorell var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu 16. janúar 1964, leikstjóri var Baldvin Halldórsson og leiktjöld hannaði Gunnar Bjarnason. Þýðandi leikritsins var Vigdís Finnbogadóttir, sem fagnaði einmitt 95 ára afmæli sínu fyrr á árinu, og ritstýrði hún sömuleiðis leikskránni. Þar ritar hún einnig tvo pistla þar sem fjallað er um finnska leikskáldið og leikmenningu.
Alþýðublaðið lýsir Læðunum á eftirfarandi máta í grein sem birtist 8. janúar 1964: „Það má segja, að þetta sé „kvennaleikur“ því aðeins kvenfólk kemur fram í leiknum“ og sama dag birtist eftirfarandi fyrirsögn í Þjóðviljanum: „Enginn karlmaður – en ellefu konur á sviðinu“. Læðurnar gerist „að haustlagi í kaffistofu kvenna í spunaverksmiðju“ þegar verkakonurnar ákveða að leggja niður vinnu til að hrekja verkstýruna, Mörtu Bartsche, úr starfi. En ekki er allt sem sýnist …
Með hlutverk fóru Nína Sveinsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Helga Valtýsdóttir, Guðbjörg Þorbjarnardóttir, Bryndís Pétursdóttir, Kristbjörg Kjeld, Þóra Friðriksdóttir, Bríet Héðinsdóttir, Jóhanna Norðfjörð, Oktavía Stefánsdóttir og Brynja Benediktsdóttir.
Hér má sjá leikskrána við Læðurnar á timarit.is
Eldri kjörgripur
Sjá nánarEldri kjörgripur
Sjá nánarNetspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.
Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.