VIÐ ERUM MARGAR
Sýning í Þjóðarbókhlöðu
17.10.2025 - 09.03.2026
VIÐ ERUM MARGAR er sýning á safnkosti Kvennasögusafns Íslands, sem haldin er í tilefni af 50 ára afmæli safnsins.
Kvennasögusafn var stofnað 1. janúar 1975 á heimili fyrstu forstöðukonu þess, Önnu Sigurðardóttur, í blokkaríbúð hennar við Hjarðarhaga. Stofnun safnsins var fyrsti íslenski viðburðurinn á alþjóðlegu kvennaári Sameinuðu þjóðanna en árið 2025 hefur einnig verið útnefnt kvennaár.
Markmið Kvennasögusafns er að safna, skrá og varðveita heimildir um sögu kvenna og stuðla að rannsóknum á kvennasögu. Starfsemi safnsins byggir á þeirri sannfæringu að líf húsmóðurinnar sem sýður fisk í potti sé jafnórjúfanlegur hluti sögunnar og stjórnmálakarlsins sem stígur í pontu á Alþingi.
Frá árinu 1996 hefur Kvennasögusafn starfað innan Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasfns í Þjóðarbókhlöðu en það var draumur Önnu Sigurðardóttur frá upphafi – enda er kvennasagan hluti af þjóðarsögunni.