Konur í sviðslistum
Sýning í Þjóðarbókhlöðu
29.10.2025 -
Í tilefni Kvennaársins hefur verið sett upp örsýning á 4. hæð Þjóðarbókhlöðu sem ber heitið „Konur í sviðslistum.“ Konur hafa ætíð verið virkir þátttakendur og brautryðjendur í sviðslistum Íslands. Fimm konur voru á meðal stofnenda Leikfélags Reykjavíkur árið 1897: Gunnþórunn Halldórsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Stefanía Guðmundsdóttir, Steinunn Runólfsdóttir og Þóra Sigurðardóttir. Gögn frá leikkonunum Gunnþórunni og Stefaníu má sjá á sýningunni. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsta konan til að gegna stöðu leikhússtjóra ríflega 70 árum seinna í sama leikfélagi. Tinna Gunnlaugsdóttir varð síðan fyrsta konan til að gegna stöðu þjóðleikhússtjóra árið 2005. Konur voru frumkvöðlar í dansmenntun og dansi, þær leikstýrðu tímamótasýningum, léku ógleymanleg hlutverk út um allt land, hönnuðu leikmyndir og búninga, og bæði skrifuðu og þýddu leikverk ásamt fjölbreyttum hlutverkum bakvið tjöldin á saumastofum, í miðasölu og sminkherbergjum. Á sýningunni má sjá örlítið brot af framlagi kvenna til sviðslista á Íslandi síðustu 130 árin.