Þýðingar á frönsku og dönsku

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen, þýðendur íslenskra höfunda á frönsku og dönsku.

Sett hefur verið upp í safninu  lítil sýning með nokkrum útgáfum á þýðingum eftir Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen, en þau hafa verið ötul við að þýða verk íslenskra höfunda á frönsku og dönsku. Bæði fengu þau á bókmenntahátíð 2015 heiðursviðurkenninguna ORÐSTÍR, sem ætlað er að vekja athygli á ómetanlegu starfi þýðenda. Að viðurkenningunni standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Catherine Eyjólfsson, þýðandi íslenskra höfunda á frönsku

Á síðari árum hefur orðstír íslenskra bókmennta í Frakklandi vaxið til muna. Íslensk fornrit og rit Halldórs Laxness náðu ágætri fótfestu á frönskum bókamarkaði á tuttugustu öld en frá aldamótum hefur þýðingum á íslenskum samtímaskáldskap fjölgað og þær vakið verðskuldaða athygli. Meðal þeirra sem eiga ríka hlutdeild í þessari velgengni er Catherine Eyjólfsson sem fluttist til Íslands frá Frakklandi árið 1972, starfaði lengi sem frönskukennari en sneri sér á tíunda áratugnum að þýðingum. Hún hefur þýtt yfir 40 íslensk verk, þar á meðal skáldsögur og ljóð eftir mörg fremstu núlifandi skáld þjóðarinnar, svo sem Auði Övu Ólafsdóttur, Einar Má Guðmundsson, Guðberg Bergsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Gyrði Elíasson, Ingibjörgu Haraldsdóttur, Lindu Vilhjálmsdóttur, Pétur Gunnarsson, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Sjón, Steinunni Sigurðardóttur, Svövu Jakobsdóttur og Thor Vilhjálmsson. Sum þessara verka hafa verið tilnefnd til virtra verðlauna, nú síðast þýðing Catherine á Svari við bréfi frá Helgu eftir Bergsvein Birgisson sem tilnefnd er til verðlauna sem háskólinn í Lille veitir höfundi og þýðanda í sameiningu.

Erik Skyum-Nielsen, þýðandi íslenskra bókmennta á dönsku

Erik Skyum-Nielsen er menntaður bókmenntafræðingur og virtur bókmenntagagnrýnandi. Hann hefur undanfarin 40 ár verið ötull og áhrifaríkur sendiherra íslenskra bókmennta í Danmörku, eða allt frá því að hann var ráðinn sendikennari í dönsku við Háskóla Íslands um miðjan áttunda áratuginn. Hann hefur þýtt yfir 40 íslensk verk á dönsku, þar á meðal fornsögur og eddukvæði en einnig ljóð, skáldsögur og leikrit eftir samtímahöfunda, m.a. Svövu Jakobsdóttur, Thor Vilhjálmsson, Stefán Hörð Grímsson, Birgi Sigurðsson, Fríðu Á. Sigurðardóttur, Gyrði Elíasson og Gerði Kristnýju. Fyrstu þýðingar Eriks komu út árið 1981, annars vegar smásögur eftir íslensk samtímaskáld, hins vegar úrval ljóða eftir ungt íslenskt ljóðskáld, Einar Má Guðmundsson, sem hafði ári fyrr sent frá sér fyrstu tvær ljóðabækur sínar. Erik hefur allar götur síðan þýtt allflest verk Einars á dönsku skömmu eftir að þau hafa komið út á íslensku og lagt þannig grunn að þeim vinsældum sem Einar hefur notið í Danmörku. Að nokkru leyti greiddu þessar dönsku þýðingar Einari og fleiri íslenskum samtímahöfundum leið á aðra markaði, ekki síst á Norðurlöndum og í Þýskalandi.

Eldri sýningar og viðburðir

Allar sýningar
Arfur aldanna I-II

Arfur aldanna I-II

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Pappírsslóð rakin

Pappírsslóð rakin

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall