Skylduskil

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er þjóðbókasafn Íslendinga.  Eitt meginhlutverk þjóðbókasafna er að safna til hins ítrasta öllu efni sem út er gefið í viðkomandi landi, varðveita þetta efni til framtíðar og gera það aðgengilegt öllum sem vilja nota það til fróðleiks og rannsókna.

Af þessum sökum hafa í flestum löndum verið sett lög sem kveða á um að þjóðbókasöfn og einnig aðrir aðilar hafi þá skyldu að varðveita þann menningararf sem hér um ræðir.

Núverandi lög um skylduskil tóku gildi 1. janúar 2003, en íslensk lög um þetta efni voru fyrst sett árið 1886. Í lögunum felst að útgefendum, prentsmiðjum og öðrum fjölföldunaraðilum er skylt að senda tiltekinn fjölda eintaka af öllu útgefnu efni til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns til varðveislu. Skilaskyldan nær einnig til efnis sem framleitt er erlendis fyrir íslenska útgefendur.

Skylduskil til Landsbókasafns ná yfir allt efni útgefið á pappír, örgögn og skyggnur, hljóðrit, stafrænt efni, efni útgefið á almennu tölvuneti og samsett efni. Skylduskil á rafrænu efni ná meðal annars yfir vefsíður, en safninu ber að safna þeim og varðveita á sama hátt og annað efni.

Útgefendur/höfundar að rafrænu efni senda inn rafrænar útgáfur í gegnum vefgátt safnsins. Með sendingu skulu fylgja upplýsingar um aðgengi að efninu og er mögulegt að haka við þau skjöl sem eiga að vera lokuð. Sjá nánari upplýsingar á vefsíðu vefgáttar, Rafræn skil: http://skil.landsbokasafn.is/is/upload. Best er að fá efni á PDF og/eða EPUB sniði. Efni sem heimilt er að birta er birt á Rafhlöðunni.

Nánari upplýsingar um framkvæmd skylduskila er að finna á eftirfarandi síðum: