Sigurður Pálsson fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk þaðan maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Sigurður kenndi við Leiklistarskóla Íslands 1975–1978 en sinnti síðustu ár kennslu við ritlistardeild Háskóla Íslands. Fyrsta ljóðabók Sigurðar Ljóð vega salt kom út 1975 en alls sendi hann frá sér 16 ljóðabækur. Sigurður var afkastamikill rithöfundur á öðrum sviðum. Fyrir fyrstu bókina í endurminningaþríleik sínum, Minnisbók (2007), hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sigurður var einnig eitt vinsælasta leikskáld þjóðarinnar en hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir handrit sitt að Utan gátta (2008). Árið 2007 sæmdi Frakklandsforseti Sigurð riddarakrossi Frönsku Heiðursorðunnar (Chevalier de l’Ordre National du Mérite). Sigurður var auk þess mikilvirkur þýðandi og má þar nefna ljóð eftir Paul Éluard og Jacques Prévert og skáldsögu franska Nóbelsverðlaunahafans Patricks Modiano. Árið 2016 komu út þýðingar Sigurðar á Ummyndanir og fleiri ljóð eftir Willem M. Roggeman og Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem hann þýddi ásamt Sölva Birni Sigurðssyni. Sigurður Pálsson hlaut fyrstur Maístjörnuna, ljóðaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns sem afhent voru 18. maí 2017. Sigurður lést 19. september 2017.
Þegar Sigurður Pálsson hlaut Maístjörnuna var sett upp lítil sýning á nokkrum bóka hans, þar á meðal verðlaunabókinni Ljóð muna rödd. Í minningu Sigurðar var sýningin stækkuð og má þar nú einnig sjá nokkur leikrita hans, þýðingar hans og þýðingar á verkum hans á erlend mál.
Sýningin stendur til 10. apríl 2018.