Í tilefni af því að Kristín Ómarsdóttir hlaut ljóðaverðlaunin Maístjörnuna 2017 hefur verið sett upp í safninu lítil sýning á bókum hennar ásamt verðlaunabókinni Kóngulær í sýningargluggum. Kristín er fædd 24. september 1962 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Flensborg í Hafnarfirði 1981 og stundaði síðan nám í íslensku, almennri bókmenntafræði og spænsku við Háskóla Íslands. Kristín hefur dvalist í Kaupmannahöfn og Barcelona en býr nú og starfar í Reykjavík. Kristín hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og fékk Menningarverðlaun DV sama ár. Leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Skáldsagan Flækingurinn var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015. Kóngulær í sýningargluggum var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017 en Kristín var líka tilnefnd 2012 fyrir Millu, 1997 fyrir Elskan mín ég dey og 1995 fyrir Dyrnar þröngu. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar sínar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form: myndbönd og skúlptúra. Verk Kristínar hafa verið þýdd á ensku, dönsku, sænsku, galísku, frönsku, þýsku, spænsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.
Sýningin stendur til 10. október.