Pappírsslóð rakin
Efniviður íslenskra bóka og handrita frá 16. og 17. öld – frá pappírsframleiðslu til bókasafna
Sýning í Þjóðarbókhlöðu
23.11.2022 - 26.02.2023

Verkefnið Pappírsslóð rakin hlaut þriggja ára styrk frá Rannís árin 2018–2021. Markmið verkefnisins var að komast að uppruna þess pappírs sem notaður var í skjölum, handritum og bókum á Íslandi á 16. og 17. öld með greiningu á vatnsmerkjum í pappír. Meðal þess sem leitað var svara við er hvar og hvenær pappírinn, sem notaður var í bókum og handritum, var framleiddur. Einnig var reynt að komast að því hvort mismunandi pappír hafi verið notaður í mismunandi tilgangi. Var til dæmis notaður annar pappír í handrit en prentaðar bækur?
Í verkefninu voru rannsökuð rúmlega 140 skjöl og 350 handrit, ásamt 36 prentuðum bókum og vatnsmerki í þeim greind. Auk þess voru 480 vatnsmerki í 98 skjölum, 61 handriti og einni bók mynduð.
Verkefnið var unnið af fræðimönnum á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samstarfi við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Sýningin er afrakstur þessa samstarfs.

