Teikningar og grafík prýða málgögn Rauðsokkahreyfingarinnar (1970—1982). Þessar myndir voru notaðar til vitundarvakningar, til að fylkja liði, til þess að blása lífi í áður óheyrðar sögur og málefni sem gat reynst erfitt að ræða um eða skilja, jafnt sem að teikningarnar voru til þess að skemmta og hæðast að þeim mótbárum sem hreyfingin mætti. Teikningarnar, meira að segja þær skoplegustu, eru beittar, áríðandi og óskammfeilnar, og bera með sér þessa einstöku orku sem umvafði hreyfinguna. Þær tala beint inn í myndnotkun og myndmál annarra kvennahreyfinga á þessum tíma og tengja sig þannig við alþjóðlegan umræðugrundvöll óháð tungumáli. Skarpar línur, fígúrur og rauði liturinn tóku virkan þátt í að lyfta því grettistaki sem Rauðsokkur ruddu úr vegi. Teikningarnar sem eru hér til sýnis eru fengnar úr tímariti þeirra Forvitin rauð, úr Þjóðviljanum og úr safnkosti Kvennasögusafnsins sem sá um að leiðbeina í þessu verkefni sem unnið var í samstarfi við Íslenska teiknisetrið og styrkt af Rannís, Nýsköpunarsjóði námsmanna. Karólína Rós Ólafsdóttir og Boaz Yosef Friedman tóku saman textann.