Fyrsta íslenska hljómplatan var 78 snúninga, tekin upp í Kaupmannahöfn 1910. Upp úr miðri 20. öldinni urðu miklar breytingar á miðlun tónlistar þegar hæggengar og sveigjanlegri vinylplötur komu til sögunnar. Íslenzkir tónar gáfu út fyrstu íslensku 45 snúninga plöturnar 1954. Fyrsta 33 snúninga platan (LP) kom út 1956 og var hún með Gísla Magnússyni píanóleikara. Hljómplatan var gefin út af His Masters Voice (HMV) og sá Fálkinn um dreifingu. Áfram voru þó gefnar út 78 snúninga plötur. Í hljóðsafni má hlýða á tóndæmi af 78 snúninga plötu með Ragnari Bjarnasyni, Sigrúnu Jónsdóttur og KK sextettinum frá 1957. Sett hefur verið upp örsýning í safninu um þróun íslenskra hljómplatna og kynningu á þeim.