Appelsínur frá Abkasíu (lokið)

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Nafn Veru Hertzsch er mörgum Íslendingum kunnugt og órjúfanlega tengt Halldóri Laxness og uppgjöri hans við Sovétkommúnismann sem hann aðhylltist ungur. Veturinn 1938, þegar hreinsanir Stalíns stóðu sem hæst, var Vera tekin höndum ásamt ársgamalli hálfíslenskri dóttur sinni fyrir augunum á Halldóri sem var gestkomandi á heimili þeirra í Moskvu. Aldarfjórðungur leið þar til hann leysti frá skjóðunni um þann atburð en afdrif mæðgnanna voru áfram óleyst gáta.

Veru og litlu stúlkunnar biðu örlög sem þær deildu með milljónum Sovétborgara; ömurleg fangabúðavist, sjúkdómar, þrælkun og hungur. Þær áttu aldrei afturkvæmt og litlar sem engar fregnir bárust ættingjum og vinum sem lifðu í óvissu áratugum saman.

Jón Ólafsson hefur rannsakað æviferil Veru Hertzsch og rekur hann eftir torsóttum heimildum og gegnum endurminningar kvenna sem sátu í sömu fangabúðum en komust, ólíkt Veru, lífs af. Jafnframt er ljósi varpað á kynni Íslendinga af Sovétríkjum Stalíns og uppgjörið sem fram fór áratugum síðar – og ástæður þess að Vera Hertzsch varð þjóðþekkt á Íslandi löngu eftir að hún hvarf.

Bókin Appelsínur frá Abkasíu í útgáfu Forlagsins segir þessa áhrifamiklu sögu. Hún hlaut fræðiritaverðlaun Hagþenki 2012 og var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012. Í greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis 2012 segir um bókina: „Áhrifamikil og gagnrýnin greining á kommúnismanum og Gúlagi Sovétríkjanna sem afhjúpar varnarleysi hins almenna borgara.“ Sjá nánar á: http://hagthenkir.is/

Gögn tengd útgáfunni eru nú til sýnis í Íslandssafni í Þjóðarbókhlöðu.

Eldri sýningar og viðburðir

Allar sýningar
Prentlist og Passíusálmar

Prentlist og Passíusálmar

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Nóbelsverðlaun Halldórs Laxness 1955

Nóbelsverðlaun Halldórs Laxness 1955

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Fjallkonan og Reykvíska eldhúsið

Fjallkonan og Reykvíska eldhúsið

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Fortíðarraddir

Fortíðarraddir

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar