Ágrip af sögu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns

 

Landsbókasafn Íslands

Fyrsti vísir íslensks þjóðbókasafns, Landsbókasafns Íslands, varð til árið 1818 að tillögu danska fornfræðingsins Carls Christians Rafns. Í upphafi nefndist safnið „Stiftsbókasafnið“. Því var komið fyrir á lofti dómkirkjunnar í Reykjavík. Jón Árnason þjóðsagnasafnari var ráðinn bókavörður við safnið 1848.

Bókakosturinn var á þessum árum 5-6 þúsund prentuð rit. Árið 1846 eignaðist safnið handritasafn Steingríms Jónssonar biskups og árið 1877 keypti Alþingi handa safninu bóka- og handritasafn Jóns Sigurðssonar forseta.

Árið 1881 var bókasafnið flutt í hið nýreista Alþingishús og hlaut þá nafnið Landsbókasafn Íslands. Þá var fjöldi prentaðra bóka og handrita í safninu um 19 þúsund. Árið 1886 var íslenskum prentsmiðjum gert að afhenda safninu tvö eintök af öllu prentuðu máli. Um aldamótin 1900 var handritasafn Hins íslenska bókmenntafélags keypt handa safninu. Þá var líka skipaður fastur bókavörður í fullt starf við safnið.

Landsbókasafnið fluttist í nýja byggingu, Safnahúsið við Hverfisgötu, árið 1909. Safnahúsið var þá eitt stærsta og glæsilegasta hús landsins. Landsbókasafnið var þar til húsa í 85 ár, í sambýli við Þjóðskjalasafn Íslands og hluta tímans einnig við Þjóðminjasafn Íslands og Náttúrugripasafn Íslands.

Háskólabókasafn

Háskólabókasafn var formlega stofnað árið 1940, en forsaga þess teygir sig nær öld lengra aftur í tímann, eða allt til þess er stofnaður var Prestaskóli árið 1847. Bæði hann og Læknaskólinn (stofnaður 1876) og Lagaskólinn (stofnaður 1908) komu sér upp bókasöfnum sem urðu eign viðkomandi háskóladeilda eftir að Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Heimspekideildin, sem var stofnuð um leið og háskólinn, eignaðist einnig fljótlega nokkurn bókakost. Þegar Aðalbyggingin var tekin í notkun vorið 1940 voru bókasöfn deildanna sameinuð í eitt Háskólabókasafn sem fékk hluta af bakálmu hússins og var opnað 1. nóvember sama ár.

Bókakostur safnsins var þá um 30 þúsund bindi. Árið 1941 var lögfest að safnið fengi eitt eintak af öllu því efni sem prentað var í landinu. Allt til ársins 1964 var Háskólabókavörður eini fastráðni starfsmaður safnsins, en starfsmönnum fjölgaði smám saman og þegar safnið sameinaðist Landsbókasafni Íslands 1994 voru þeir orðnir rúmlega tuttugu. Þá var fjöldi binda í safninu um 345 þúsund.

Samstarf og sameining

Umræður um samruna Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns hófust á fimmta áratug 20. aldar. Árið 1956 var skipuð nefnd til að undirbúa sameiningu og árið 1978 hófust framkvæmdir við byggingu Þjóðarbókhlöðu sem átti að hýsa nýtt sameinað safn. Hönnuðir nýja hússins voru Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson.

Á öndverðu árinu 1990 var keypt rafrænt bókasafnskerfi fyrir bæði söfnin. Kerfið nýttist einnig öðrum bókasöfnum í landinu. Það var formlega tekið í notkun í desember 1991 undir heitinu Gegnir (nú Leitir.is).

Nýtt sameinað bókasafn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, var opnað við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðu fimmtudaginn 1. desember 1994. Þar með varð til stórt og öflugt bókasafn með góðri vinnuaðstöðu fyrir almenning og nemendur við Háskóla Íslands.

Í lögunum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn frá 1994 er mælt fyrir um hlutverk safnsins. Því er ætlað að vera í senn þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands, og sem rannsóknarbókasafn ber því að halda uppi upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs.

Frá opnun þess hefur safnið notið mikilla vinsælda bæði meðal háskólanema og alls almennings. Hlutur rafrænnar miðlunar hefur vaxið ár frá ári og heldur safnið nú úti mörgum vefjum þar sem safnkostinum er miðlað með einum eða öðrum hætti.

Landsbókaverðir og háskólabókaverðir

Landsbókaverðir 1848-1994

  • 1848 - 1887 Jón Árnason
  • 1887 - 1906 Hallgrímur Melsted
  • 1908 - 1924 Jón Jacobson
  • 1924 - 1943 Guðmundur Finnbogason
  • 1943 - 1944 Þorkell Jóhannesson
  • 1944 - 1964 Finnur Sigmundsson
  • 1964 - 1994 Finnbogi Guðmundsson
  • 1994 - Nanna Bjarnadóttir (frá september til nóvember vegna sameiningarinnar)

Háskólabókaverðir 1940-1994

  • 1940 -1945 Einar Ólafur Sveinsson
  • 1945 -1974 Björn Sigfússon
  • 1974 -1994 Einar Sigurðsson (í leyfi frá 1992 til 1994)
  • 1992 - 1994 Þórir Ragnarsson (staðgengill Einars Sigurðssonar)

Landsbókaverðir frá 1994

  • 1994 - 2002 Einar Sigurðsson (áður Háskólabókavörður)
  • 2002 - 2007 Sigrún Klara Hannesdóttir
  • 2007 - Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir

Sjá nánar

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn fyrstu fimm árin : 1. desember 1994 - 1. desember 1999, Einar Sigurðsson og Þórir Ragnarsson (ritstj.), Reykjavík : Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, 1999.

Finnbogi Guðmundsson, „Landsbókasafn Íslands 1818-1994“, í Guðrún Pálsdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir (ritstj.) Sál aldanna : safn greina um bókasöfn og skyld efni, [Reykjavík] : Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands : Háskólaútgáfan, 1997, s. 81-97.

Jón Jacobson, Landsbókasafn Íslands 1818-1918 : minningarrit, Reykjavík : Landsbókasafn Íslands, 1920.

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall