Dánarósk Hólmfríðar Benediktsdóttur

frá árinu 1838

„Þar eð mín ógleymanlega dýrmæta dóttir Hólmfríður sáluga sem burtkallaðist frá hérvistardvölinni 28. nóvember næstliðinn á sínu 14 aldursári ámálgaði oft við mig í sinni 1 vikna sjúkdómslegu, sem dró hana til dauða, að ég, auk annarra smærri gjafa, sem hún ánafnaði sjálf, „skyldi gjöra sín vegna gott munaðarlausum börnum“ og ítrekaði þetta tæpum klukkutíma fyrir sitt andlát, sjáanlega inntekin af fagnaði og forsmekk eftirkomandi aldar, svo læt ég mér hugkvæmast að fullnægja þessum hennar góðgjörnu tilmælum.“

Á þessum orðum hefst skjal sem Benedikt Vigfússon undirritaði á Hólum þann 31. janúar 1838. Skjalið er varðveitt á Kvennasögusafni Íslands og er með því elsta í safnkostinum. Þrátt fyrir að vera hátt í tvö hundruð ára gamalt barst það ekki á skjalasafn fyrr en á haustmánuðum 2018. Fram að því hafði það verið í heimahúsi. Dánarósk Hólmfríðar Benediktsdóttur fannst meðal skjala Elínar Briem (1856-1937), forstöðukonu Kvennaskólans á Blönduósi og höfundar Kvennafræðarans. Það er ekki fullvitað hvernig þetta skjal endaði í fórum Elínar sem er fædd töluvert seinna. Líklega kemur það frá föður hennar, Eggerti Briem, sem var sýslumaður í Skagafjarðarsýslu 1861-1884. Þetta tiltekna skjal er nærri hálfri öld eldra en önnur gögn Eggerts sem bárust Kvennasögusafni með skjölum Elínar og sker sig nokkuð úr.

Benedikt Vigfússon var fæddur árið 1797 og er þekktastur fyrir það að hafa keypt Hóla í Hjaltadal árið 1824. Þá var staðurinn ekki lengur biskupssetur og hafði fallið í mikla niðurníðslu en Benedikt, sem var sterkefnaður, byggði staðinn upp að nýju. Hann var giftur Þorbjörgu Jónsdóttur og áttu þau þrjár dætur sem komust á legg; þær Sesselju, Hólmfríði og Kristínu. Allar létust þær á fimm vikna tímabili 1837, á aldrinum fjögurra til fimmtán ára. Legsteina þeirra má enn sjá á Hólum. Ári síðar eignuðust Benedikt og Þorbjörg soninn Jón, en þau jöfnuðu sig aldrei á missi dætranna.

Hólmfríður var síðasta systirin til að veikjast. Tveimur mánuðum eftir lát hennar gefur Benedikt jörðina Utanverðarnes svo „afgjald hennar verjist til uppeldisstyrks því munaðarlausu barni innan Skagafjarðarsýslu, einkum ef finnst í Hólahreppi, sem eftir nefndra yfirvalda áliti reiknast kynni þar til fyrir sérlegar kringumstæður svo sem forstöðumanna missis, ráðvant ætterni og svo framvegis og sína góðu eiginlegleika helst útveljandi, svo við hreppsforsorgun fríist, og þá uppfóstursstyrkur þessi hefur komið einu slíku barni til nota, uns það getur unnið sér brauð, þá sé hann eftir viðkomandi yfirvalda ráði úthlutaður öðru þvílíku, og verði slíkum fyrirmælum framfylgt einu munaðarlausu barni eftir annað til hjálpar, svo lengi nefnd jörð getur þar til þénað.“

Elín Briem

Benedikt Vigfússon

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Nonni. Brot úr æskusögu Íslendings. Eigin frásögn

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Perla Fáfnisdóttir - ungfrú Alísland

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Virkisvetur – Björn Th. Björnsson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall