Teikningar Gísla J. Ástþórssonar

Kjörgripir safnsins í maí eru teikningar Gísla J. Ástþórssonar (1923-2012) sem hafa nýlega verið afhentar safninu. Gísli kvaðst í viðtali við Sjómannadagsblaðið 1988 ekki hafa farið að teikna í fullri alvöru fyrr en hann tók við ritstjórn á Alþýðublaðinu í upphafi tólf mílna þorskastríðsins 1958. Þá fór hann að teikna myndir í blaðið sem voru gjarnan komment á erkióvinina Breta. Ein af þeim teikningum varð upphafið að Siggu Viggu, síldarstúlkunni með skýluklútinn. Fyrsta myndin varð reyndar svo fræg að breska stórblaðið The London Times birti hana sem vitnisburð um tóninn á Íslandi í garð Breta á þessum örlagatímum. Gísli segist hafa hugsað sér Siggu Viggu sem geðgóða og duglega stúlku, en fremur seinheppna. Ekki að hún væri beinlínis hrakfallabálkur, heldur að hún stæði skuggamegin í tilverunni. Sigga Vigga hefur alltaf unnið hjá Gvendi í Þorski hf. og þar eignaðist hún sína bestu vinkonu, Blíðu sem er alltaf í góðu skapi á hverju sem gengur. Þetta eru þrjár aðalsöguhetjurnar. Gísli hætti á Alþýðublaðinu 1963 og næstu árin lét Sigga Vigga lítið á sér kræla, en þegar Gísli starfaði hjá Fálkanum um miðjan sjöunda áratuginn birti hann teiknaðar opnur um verkföll, sumarstörf og fleira þar sem sjá má Siggu Viggu og félaga í frumdrögum. Uppgangstími Siggu Viggu hefst hinsvegar ekki fyrr en Gísli byrjaði aftur á Morgunblaðinu 1973 og í rúman áratug birtist Sigga Vigga á síðum Morgunblaðsins þrisvar í viku. Fimm bækur um Siggu Viggu voru gefnar út hjá Bros forlaginu á árunum 1978-1980 og hafa nú verið endurútgefnar: Sigga Vigga og tilveran, Fjörutíu og sjö snúðar, Sigga Vigga og þingmaðurinn, Sigga Vigga í steininum og Stattu klár Sigga Vigga. Auk þess gaf Bros út bókina Plokkfisk, úrval teikninga sem Gísli teiknaði um alllangt skeið í Sjávarfréttir. Teikningar Gísla J. Ástþórssonar og brot af öðru höfundarverki hans má nú sjá á sýningu í safninu.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Leikmynd og búningar Lothars Grund við Spádóminn

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall