Tímanna safn 1818-2018. Erindi Péturs H. Ármannssonar 5. apríl

04.04.2018

Fimmtudaginn 5. apríl mun Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, flytja erindið „„Veglegasta og vandaðasta steinhús þessa lands“ – Safnahúsið frá sjónarhóli íslenskrar húsagerðarsögu“ í fyrirlestraröðinni Tímanna safn sem haldin er í tilefni af 200 ára afmælis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Í útdrætti erindisins segir:

„Safnahúsið við Hverfisgötu var helsta opinbera bygging heimastjórnaráranna, reist á árunum 1906-9 eftir uppdráttum danska arkitektsins Johannesar Magdahl-Nielsen. Húsið sjálft og lestrarsalur þess voru sérsniðin að þörfum Landsbókasafnsins sem var þar til húsa á árunum 1909-1994. Þar voru einnig salir og geymslur Þjóðskjalasafns Íslands, Náttúrugripasafnsins og Þjóðminjasafnsins. Að margra mati er Safnahúsið eitt fegursta verk á sviði byggingarlistar hér á landi. Bygging þess var mikilvægur áfangi fyrir íslenskan iðnað og verkmenningu. Verktakinn við byggingu þess var íslenskur og þeir handverksmenn sem við bygginguna unnu, en hönnun og eftirlit var í höndum danskra húsameistara. Byggingin á sér fyrirmynd í þekktum bókhlöðum í Kaupmannahöfn, París og Boston. Á leitarsíðum netsins birtist Safnahúsið sem kunnasta verk arkitektsins Magdahl-Nielsens og það sem heldur nafni hans á lofti. Sjálfur leit hann aldrei eigin augum þessa einu byggingu sem hann teiknaði utan heimalands síns, svo vitað sé.“

Erindið verður flutt í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu á milli kl. 12:05 og 12:45.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Fyrirlestraröðin á Facebook: https://www.facebook.com/events/182997635779892/


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall