Sýningin Bókverk er sett er upp í tilefni af 200 ára afmæli Landsbókasafnsins en undanfarið hefur verið aukin áhersla á sérstöðu bókverka í safnkostinum og í þróun er sérstakt bókverkasafn sem hluti af sérsöfnum Landsbókasafns. Sýningin er staðsett á 3. hæð í fjölnotasal Safnahúss og verður opin 7. júní 2018–2. júní 2019.
Hugtakið bókverk hefur margbrotna merkingu í íslensku máli og eru bókverk fjölbreyttur og ósamstæður flokkur bóka í hugum flestra sem til þekkja. Hugtakið var fyrst notað hér á landi undir lok 19. aldar til að lýsa viðamiklum ritverkum sem gefin voru út í mörgum bindum þar sem sérstaklega mikið var lagt í prentun, útlit og umgjörð bókarinnar. Síðan þá hefur hugtakið verið notað þegar talað er um tölusettar bækur, tímarit, veggspjöld og ýmisskonar smáprent, óháð efnistökum – allt frá fjölritaðri og handgerðri sjálfsútgáfu til fjöldaframleiddrar forlagsútgáfu þar sem miklu er tilkostað við umgjörð verksins. Nú á tímum er hugtakið bókverk í hugum flestra bók eftir listamann – þar sem bókin er verkið sjálft, miðillinn sem listamaðurinn velur vegna þeirra eiginleika sem bókin hefur umfram aðra miðla.
Á sýningunni er lögð áhersla á að sýna forsögu bókverksins í samspili við tilraunir listamanna með bókarformið. Verkin eru sótt í safnkost Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og eru öll unnin hérlendis frá lokum 19. aldar til dagsins í dag. Öll verkin á sýningunni eru dæmi um prentverk og tilraunir listamanna, prentara og útgefenda til skapandi nálgunar við prentlistina. Eldri verkin á sýningunni eru sett í samhengi við bókagerð samtímans og á sýningunni má sjá bækur og aðra útgáfu listamanna í sínu fjölbreyttasta formi.
Skapandi prent - forsaga
Hér má sjá dæmi um skapandi umgjörð prentlistar þar sem bæði handband og ólíkar útgáfur af forlagsbandi eru skoðaðar., ásamt öðru smáprenti eins og veggspjöldum og bókakápum.
Skapandi prent - veggspjöld og lauskápur
Hér má sjá dæmi um skapandi umgjörð prentlistar þar sem bæði veggspjöld og bókakápur fá að njóta sín. Hugtakið bókverk hefur einnig verið notað þegar talað er um tölusett tímarit, veggspjöld og ýmisskonar smáprent, óháð efnistökum – allt frá fjölritaðri og handgerðri sjálfsútgáfu til fjöldaframleiddrar forlagsútgáfu þar sem miklu er tilkostað við umgjörð verksins.
Skapandi prent - tímamótaverk
Hér eru dæmi um verk sem hafa valdið straumhvörfum og eru tímamótaverk í prentverki og tilraunum listamanna, prentara og útgefenda til skapandi nálgunar við prentlistina og er hér áhersla lögð á samstarf listamanna og rithöfunda um gerð bókverka.
Samruni ritmáls og myndmáls
Hér má sjá samstarf rithöfunda og myndhöfunda um gerð bóka - þar sem sérstök áhersla er lögð á umgjörð og útlit bókarinnar.
Bókverk - ný aðföng á Landsbókasafni
Í dag er útgáfa á bókverkum listamanna gróskumikil og fjölbreyttur hópur listamanna nýtir sér ýmsar leiðir í útfærslu verka sinna – allt frá hinu handgerða til fjölmargra stafrænna prentunarmöguleika – allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Einnig má nefna að síðustu árin hafa sprottið upp hér á landi örforlög, litlar bókabúðir og hátíðir þar sem miðlun og sala bókverka, ritlinga (zine) og fjölbreyttrar jaðarútgáfu hefur verið í forgrunni. Allt er þetta til marks um að bókverk og bækur listamanna eru ört vaxandi flokkur í aðföngum safna hér á landi.
Eldri sýningar og viðburðir
Allar sýningarEinkaútgáfur, örforlög og annarskonar miðlun frá 1977 til samtímans
Sýning í Þjóðarbókhlöðu
Sjá nánar