Jólaútgáfur

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Í tilefni aðventunnar hefur verið stillt upp nokkrum jólatengdum útgáfum frá síðustu tveimur öldum eða svo. Hér eru frumsamdar íslenskar bækur um jólin, ársrit tengd jólum og þýddar bækur. Elsta ritið er Jólagjøf handa Børnum eftir Jóhann Halldórsson (1809-1844) sem kom út í Kaupmannahöfn 1839. Á árunum 1917-1922 gaf Steindór Gunnarsson út ársritið Jólagjöfina með margvíslegu efni fyrir börn og um sama leyti gaf K.F.U.M út Jólakveðju. Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum kom út 1932. Tryggvi Magnússon myndskreytti bókina. Bókin kom út á tíma sjálfstæðisbaráttunnar þegar þjóðararfurinn gekk í endurnýjun lífdaga. Þjóðsagnaminni voru færð nær þjóðinni og um leið mörkuð sérstaða íslenskrar jólamenningar. Bókin kom nýlega út í enskri þýðingu Hallbergs Hallmundssonar, Christmas is coming. Jóhannes úr Kötlum gaf einnig út Jólavöku - safnrit úr íslenzkum bók­menntum 1945. Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson var upphaflega samin á dönsku og kom fyrst út í Þýskalandi 1936. Hún var fyrst gefin út í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar 1939. Fyrsta útgáfan í íslenskri þýðingu skáldsins sjálfs kom út 1976. Hið sígilda Jólaævintýri Dickens kom hér fyrst út í þýðingu Karls Ísfeld 1942 og var endurútgefið 2009. Jólabókin kom oft út. Sigurjón Jónsson bjó til prentunar 1947 og Halldór Pétursson dró upp myndirnar. Brian Pilkington er líklega afkastamesti höfundur jólabóka fyrir börn hér á landi á síðustu árum og íslensku jólasveinarnir í hans túlkun eru í stöðugri útrás og nýlega kom út bók hans Jólakötturinn tekinn í gegn. Einnig gefur hér að líta Jólasveinana eftir Iðunni Steinsdóttur með myndum Búa Kristjánssonar frá 1993; Jólaljóð sem Gylfi Gröndal valdi og Forlagið gaf út 1993; Jólasögur úr samtímanum eftir Guðberg Bergsson í útgáfu frá 1995. Gylfi Garðarsson bjó til prentunar Jólasöngva 1996 og loks er hér Jólabók Blekfjelagsins frá 2017, árleg útgáfa smásagnasafns meistaranema í ritlist við Háskóla Íslands, sem Blekfjelagið hefur gefið út frá 2012.

Sýningunni lýkur 10. janúar.

Eldri sýningar og viðburðir

Allar sýningar
Norrænt bókband 2018

Norrænt bókband 2018

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Þýðingar á íslenskum bókmenntum

Þýðingar á íslenskum bókmenntum

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Bókagjöf Hermanns Kjartanssonar stærðfræðings

Bókagjöf Hermanns Kjartanssonar stærðfræðings

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall