Handritaskrá í 100 ár

28.12.2018

Um þessar mundir eru liðin 100 ár frá því að útgáfa hófst á skrá yfir handritasafn Landsbókasafns, en fyrsta heftið af skránni kom út í desember 1918. Í Tímanum 28. desember segir: „Handritasafnið hefir hingað til verið fólginn fjársjóður. Enginn hefir vitað til fulls hvað þar væri að finna. Afleiðingin [var] vitanlega sú að það var að mestu leyti ónotað. Með útgáfu skrárinn...ar verður öllum almenningi greiður aðgangur að því og má telja víst að svo fari, eins og með fornbréfin, að margar eyðurnar megi fylla í sögu landsins og leiðrétta missagnir. Frágangur bókarinnar er hinn bezti. Sagt það sem segja þarf og annað ekki. Þegar glögt efnisyfirlit kemur með hverju bindi vil eg geta þess til að þeir verði býsna margir sem fýsir að skygnast í fjársjóðuna. Hverjum einasta Íslending, sem ann sögu lands síns og hefir ánægju af að nema hana, mun þessi bók hinn kærkomnasti gestur. Hún er lykill að nýjum heimi.“

Útgáfusögu handritaskrárinnar má rekja til ársins 1912, en þann 13. nóvember það ár skrifaði Jón Jacobson, þáverandi landsbókavörður, bréf til Stjórnarráðsins með tillögur um breytingar á fjárveitingum til safnsins í fjárlögum 1914 og 1915 þar sem hann nefndi eitt og annað sem þyrfti að ráðast í. „En tilfinningalegast af öllu er þó vöntunin á vísindalegri skrá (systematisk Katalog) yfir handritasafnið, þessari gullkistu fyrir íslenzkan sagnafróðleik, kveðskap o.fl., sem enn er hálfhulinn fjársjóður þeim sem nota vilja.“ (Landsbókasafn Íslands 1818 – 1918. Minningarrit, bls. 240). Það voru fleiri að hugleiða þörfina á góðri skrá yfir safnið, því mánuði síðar og degi betur skrifaði Bogi Th. Melsteð grein í Ísafold sem birtist 11. janúar 1913: „Hið versta af öllu er þó, að engin skrá er til yfir handritasafnið í Landsbókasafninu, og mikið af bréfasafni þess er eigi í neinni röð, hvað þá meira. Danir og Svíar hafa látið prenta nákvæmar skrár yfir öll íslenzk handrit í bókasöfnum þeirra; er einkum handritaskrá dr. Kr. Kaalunds hreinasta afbragð og hin bezta fyrirmynd fyrir Landsbókasafnið. Hvar sem menn koma, eru til skrár yfir íslenzk handrit, nema í Landsbókasafninu. Íslendingar ættu eigi að standa á baki öðrum þjóðum í þessu. Það ætti að semja sem fyrst og gefa út skrá yfir handritin í Landsbókasafninu, svo að hægt yrði að nota þau, og sjá hvað þar er. Á meðan þetta er eigi gert, má segja með sanni, að engin þjóð í víðri veröld sýni íslenzkum handritum jafnlítinn sóma sem Íslendingar á Íslandi. Þetta er minkunn.“ (Ísafold 11. janúar 1913, bls. 10.)

Áskorun Jóns og Boga hlaut hljómgrunn meðal yfirvalda, því ákveðið var að Páll Eggert Ólason myndi ráðast í skráningu á handritasafni Landsbókasafns (samhliða vinnu við skráningu prentaðra bóka) þetta sama ár, og kom fyrsta hefti fyrsta bindis út fyrir jól 1918 sem fyrr segir, en stefnt hafði verið að því að þeim áfanga yrði náð á aldarafmælisári safnsins. Sjálfur hafði Páll unnið að uppskriftum á íslenskum handritum sem varðveitt voru erlendis 1906–1913, og lánuð til Landsbókasafns í því skyni og varð honum þá ljóst um nauðsyn þess að gera þyrfti vandaðar skrár yfir handritin. Útgáfan markaði tímamót. Árið 1924 skrifaði Sigurður Nordal: „Árið sem síðasta hefti þessarar skrár kemur út, byrjar nýtt tímabil í rannsóknum íslenskra mennta og sögu á síðari öldum. Allir sem íslenzkum fræðum unna, munu óska, að það ár komi sem fyrst.“ (Lögrétta 2. apríl 1924, bls. 3.). Útgáfu skrárinnar lauk árið 1937 og spannaði hún þrjú bindi á rúmum 2.000 blaðsíðum með lýsingum á um 8.600 handritum.

Páll vann mikið þrekvirki með handritaskránum, en hann var þó gagnrýndur fyrir að vera nokkuð ályktanaglaður við að eigna mönnum rithendur (Jón Helgason, Handritaspjall, bls. 118) og að gera hlut kvenna í handritaarfinum ekki nægilega sýnilegan (Guðný Hallgrímsdóttir, Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur bls. 15–31.) Sjálfur skrifaði hann við verklok að í Landsbókasafni væri að finna „allt of mikið af ónýtum handritum“ en sagði jafnframt að „allar skrár eru einungis leiðbeining.“ (III. bindi, bls. vii og xi). Hvað því líður má benda á að skráin er ómissandi við að kynnast handritaarfi Landsbókasafns eins og Þorkell Jóhannesson sagnfræðingur skrifaði í formála að bók sinni, Stiftamtmenn og amtmenn á Íslandi 1750–1800 árið 1948: „Er handritaskráin eitt hið mesta þarfaverk, sem unnið hefir verið fyrir íslenzk fræði og verður seint fullþakkað, eins og hver maður mun sanna, sem leita þarf gagna í handritasafnið.“ (bls. 3).

Safnkostur handritasafns jókst á hverju ári, svo að gefin voru út fjögur aukabindi á síðari hluta tuttugustu aldar. Páll Eggert tók saman fyrsta aukabindið sem kom út árið 1947 (196 bls.), II. aukabindi kom út 1959 í umsjón Lárusar H. Blöndal (198 bls.) með skrá um skinnblöð eftir Jakob Benediktsson (42 bls.), III. aukabindi kom út 1970 í útgáfu Lárusar og Gríms M. Helgasonar (242 bls.), og svo IV. aukabindi árið 1996, á 150 ára afmæli handritasafns, í umsjón Gríms M. Helgasonar og Ögmundar Helgasonar (416 bls.).

Skrárnar má nú finna á bækur.is. Á heimasíðu handritasafns má jafnframt finna skjöl þar sem búið er að steypa mannanöfnum annars vegar og efnislyklum hins vegar í sér skjöl sem auðveldar alla leit. Þá er unnið að því að færa upplýsingar úr prentuðu skránum yfir á handrit.is.

Á myndinni eru aðalbindin þrjú sem komu út 1918 - 1937 og fyrsta viðaukabindið sem kom út 1947. Páll Eggert vakir yfir þessum verkum sínum á myndinni.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall