Dagskrá til minningar um Jón Árnason landsbókavörð og þjóðsagnasafnara

15.08.2019

Dagana 17. og 18. ágúst 2019 verður þess minnst í Skagabyggð og á Skagaströnd að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Árnasonar landsbókavarðar og þjóðsagnasafnara en hann fæddist að Hofi í Skagabyggð 17. ágúst 1819.

Dagskráin hefst með messu kl. 11:00 þann 17. ágúst í Hofskirkju þar sem Árni faðir Jóns þjónaði. Klukkan 12:00 afhjúpar Dagný Úlfarsdóttir oddviti Skagabyggðar söguskilti við félagsheimilið Skagabúð og Vilhelm Vilhelmsson flytur erindi um einn ábúenda að Hofi. Málþing hefst í Fellsborg á Skagaströnd kl. 13:30 en þar mun Dagný Úlfarsdóttir bjóða gesti velkomna og forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson flytja ávarp. Þrír fræðimenn: Rósa Þorsteinsdóttir, Kristján Sveinsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir munu flytja erindi um Jón Árnason. Á milli atburða verður flutt tónlist undir stjórn Hugrúnar Hallgrímsdóttur. Að loknu málþinginu klukkan 16:30 mun Halldór Ólafsson oddviti sveitarstjórnar á Skagastrand flytja ávarp og forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhjúpa lágmynd af Jóni Árnasyni við Spákonufellshöfða, en hún er eftir Helga Gíslason myndhöggvara. Þá verður opnuð sögusýning um Jón Árnason í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra í Gamla kaupfélagshúsinu kl. 17:30.

Sunnudaginn 18. ágúst verður kl. 9:00 gengið á Spákonufell undir leiðsögn Ólafs Bernódussonar, en safnast verður saman við Fellsborg og þaðan verður ekið að golfskálanum þar sem gangan hefst.

Fólk er hvatt til að mæta á alla dagskrárliði og allir eru velkomnir.

 

Dagskráin er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Skagabyggðar og Skagastrandar.

Dagskrá viðburðar


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall