Íslensk-dönsk orðabók eftir Sigfús Blöndal

23.04.2020

Þann 23. apríl er þess minnst að 100 ár eru frá því að Íslensk–dönsk orðabók kom út, en hún var gefin út í tveimur bindum á árunum 1920–24. Bókin er 1052 blaðsíður og hefur að geyma 114.000 uppflettiorð. Orðabókin er lykilverk í íslenskri orðabókasögu og er enn stærsta íslenska skýringaorðabókin sem hefur verið unnin til þessa. Allar skýringar á orðum, orðasamböndum og dæmum eru á dönsku.

Íslensk–dönsk orðabók er að mestu leyti samvinnuverkefni hjónanna Sigfúsar Blöndal (1874–1950) og Bjargar C. Þorláksson (1874–1934) sem þau hófu í Kaupmannahöfn á fyrsta hjónabandsári sínu árið 1903. Unnu þau svo stöðugt að orðabókinni næstu 17 árin en sökum fastra starfa Sigfúsar á Konunglega bókasafninu er ljóst að hlutur Bjargar hefur síst verið minni en hans við orðabókarstarfið. Auk þeirra hjóna komu þeir Jón Ófeigsson (1881-1938) og Holger Wiehe (1875-1925) að ritstjórninni.

Þann 2. október verður opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðu tileinkuð Íslensk-danskri orðabók. Íslensk - danskur orðabókarsjóður hefur staðið fyrir gerð rafrænnar útgáfu orðabókarinnar sem verður öllum opin og aðgengileg endurgjaldslaust á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sjá má upplýsingar hér: http://blondal.arnastofnun.is.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall