Þjóðleikhúsið 70 ára

teikningar og kort eftir Thorbjörn Egner

Í ár eru liðin 70 ár frá vígslu Þjóðleikhússins sem bar upp á sumardaginn fyrsta þann 20. apríl 1950, og markaði sá dagur sannarlega tímamót í íslenskri sögu og menningu. Afmælissýning þess í ár er hið vinsæla leikverk Kardemommubærinn eftir norska leikrita- og söngvaskáldið Thorbjörn Egner (1912–1990) og er hún helguð 70 ára sögu barnasýninga í Þjóðleikhúsinu. Verkið var frumsýnt á Stóra sviðinu árið 1960 og er nú sett upp í sjötta sinn.

Í tilefni afmælisins stendur nú yfir örsýning í Íslandssafni með teikningum og kortum eftir Thorbjörn Egner, sem jafnframt er kjörgripur maímánaðar í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Teikningarnar tilheyra tveimur einkaskjalasöfnum Leikminjasafns sem eru í vörslu Landsbókasafns. Annars vegar safni Klemenzar Jónssonar leikara og leikstjóra (1920–2002), á safnmarkinu Lbs 2019/57, og hins vegar safni Lárusar Ingólfssonar leikara og leikmynda- og búningateiknara (1905–1981), á safnmarkinu Lbs 2019/58.

Klemenz var fyrstur til að sviðsetja hérlendis leikrit Egners, Kardemommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi, og leikstýrði enduruppsetningum þessara verka allt fram á síðustu ár. Sýningarnar slógu rækilega í gegn og Egner hreifst svo mjög af sviðsetningum Klemenzar að í þakklætisskyni gaf hann Þjóðleikhúsinu höfundarlaun sín af sviðsetningum verka sinna til hundrað ára. Á milli fjölskyldna þeirra þróaðist einnig vinátta og samskipti, eins og sjá má í kortum og kveðjum Egners til Klemenzar og konu hans Guðrúnar Guðmundsdóttur (1928–2013). Kortin prýða teikningar Egners, m.a. af ýmsum persónum úr verkum hans líkt og ræningjunum í Kardemommubæ og dýrunum í Hálsaskógi. Sjálfur var hann menntaður í myndlist og myndskreytti eigin bækur, ásamt því að teikna búninga og hanna leikmyndir og plaköt fyrir leiksýningar sínar, þ.á.m. fyrir frumuppfærslur verka sinna í Þjóðleikhúsinu.

Flestar teikningar og kort Egners, sem eru til sýnis í Íslandssafni, tilheyra safni Klemenzar og eru frá árunum 1961–1981. Í safni Lárusar Ingólfssonar má þó finna eitt kort með kveðju frá árinu 1962 og teikningu Egners af „manninum á bænum“ í Dýrunum í Hálsaskógi, hlutverk sem Lárus lék sama ár í uppfærslu Þjóðleikhússins á verkinu.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Handrit eftir Sölva Helgason (1820–1895)

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Koparstunga í Nýársgjöf handa börnum 1841

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Þjóðleikhúsið 70 ára

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall