Ljóðaverðlaunin Maístjarnan afhent

28.05.2020

Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni miðvikudaginn 27. maí. Rithöfundasamband Íslands stendur að verðlaununum ásamt Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2019 hlýtur Jónas Reynir Gunnarsson fyrir ljóðabók sína Þvottadagur.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

Þvottadagur er afar innihaldsrík og margræð ljóðabók. Einkennandi fyrir ljóðin er kraftmikið og hrífandi myndmál og þótt viðfangsefni þeirra séu gjarnan alvarleg er ísmeygilegi húmorinn sjaldnast langt undan. Þetta er sterkt og vandað verk sem vekur lesanda til umhugsunar og hreyfir við honum.“

Jónas Reynir Gunnarsson er fæddur 1987. Hann er alinn upp í Fellabæ og nam ritlist við Háskóla Íslands. Hann hefur áður sent frá sér skáldsögurnar Millilendingu og Krossfiska, verðlaunaleikritið Við deyjum á Mars og ljóðabækurnar Leiðarvísi um þorp og Stór olíuskip, en fyrir þá síðarnefndu var hann tilnefndur til Maístjörnunnar og hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2017. Millilending var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2017. Þvottadagur er síðasti kafli þríleiks sem hófst með Leiðarvísi um þorp og hélt áfram í Stórum olíuskipum.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2019 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Hana skipuðu Guðrún Steinþórsdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Arnaldur Sigurðsson fyrir hönd Landsbókasafnsins.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall