Dagur íslenskrar tungu

16.11.2020

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag, 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.

Jónas Hallgrímsson er einna þekktastur fyrir kveðskap sinn, náttúrufræðistörf og nýyrðasmíði. Jónas fæddist að Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 1807. Hann var með lærðustu mönnum síns tíma, lauk guðfræðiprófi hér heima og lagði síðan stund á lögfræði og náttúruvísindi við Kaupmannahafnarháskóla. Jónas var virkur í útgáfu tímaritsins Fjölnis, orti fjölmörg kvæði, samdi sögur og þýddi erlend skáldverk og fræðirit á íslenska tungu. Í náminu og að námi loknu fór Jónas í viðamiklar rannsóknarferðir um Ísland og skrifaði í þeim nákvæmar dagbækur og skýrslur um íslenska náttúru. 

Upplýsingavefur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um Jónas Hallgrímsson (jonashallgrimsson.is) var opnaður á fæðingarafmæli hans 16. nóvember 2006.  Í tilefni dagsins í ár birtum við uppfærðan vef með nýju útliti og viðmóti sem hentar betur snjalltækjum.

Með vefnum er leitast við að heiðra minningu Jónasar, kynna verk hans og gera þau aðgengileg. Þar má meðal annars lesa kvæði og sögur Jónasar og kynna sér ítarlegar ritaskrár, rannsóknargögn og önnur handrit en á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er varðveitt mikið af efni tengdu Jónasi Hallgrímssyni.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall