„Í dag er glatt í döprum hjörtum“ – Hreinn Pálsson

Árið 1930 söng Hreinn Pálsson (1901-1978) þetta lag, „Í dag er glatt í döprum hjörtum“, inn á 78 snúninga hljómplötu. Dr. Franz Mixa (1902-1994) lék undir á orgel. Hann var austurrískur hljómsveitarstjóri og tónskáld sem hafði verið ráðinn til að stjórna tónlistarflutningi á 1000 ára afmælishátíð Alþingis þetta sama ár og varð hann ein helsta driffjöður í tónlistarlífi landsins á fjórða áratugnum. Lagið við „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ er eftir Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791) og er úr óperunni Töfraflautunni (Die Zauberflöte) og heitir ljóðið upphaflega „Bald prangt, den Morgen zu verkünden“. Töfraflautan var síðasta óperan sem Mozart lauk við. Hann samdi megnið af óperunni snemma árs 1791 og Emanuel Schickeneder (1751-1812) samdi leiktextann. Hann var þýskur leikari, söngvari og tónskáld. Engin önnur ópera Mozarts þykir hafa að geyma jafn breitt litróf stíls og strauma. Töfraflautan var frumflutt 30. september 1791, aðeins tveimur mánuðum fyrir lát Mozarts. Sr. Valdimar Briem (1848-1930) orti sálminn „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ við þetta óperulag. Ekki voru allir ánægðir með það í fyrstu að óperulag skyldi notað sem sálmalag, en brátt varð sálmurinn einn vinsælasti jólasálmur Íslendinga. Margir vinsælustu jólasálmarnir komu fyrst inn í sálmabókina árið 1886 og þar á meðal þessi. Söngvarinn Hreinn Pálsson var frá Hrísey. Hann söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar þetta sama ár, 1930, með laginu „Dalakofinn“. Það lag mun vera fyrsta íslenska dægurlagið sem sungið er inn á plötu. 

Hér má hlýða á lagið „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ á hljodsafn.is

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall