Auglýsingar Jörundar hundadagakonungs

Kjörgripir safnsins í júlí eru tvær auglýsingar Jörundar hundadagakonungs (Jørgen Jørgensen) sem tók þátt í valdaráni á Íslandi sumarið 1809. Í fyrri auglýsingunni sem er dagsett 26. júní 1809 er lýst yfir sjálfstæði landsins: „Ísland er laust og liðugt frá Danmerkur Ríkisráðum“.

Auglýsinguna frá 26. júní 1809 má sjá hér.

Í þeirri seinni, sem er frá 11. júlí sama ár, lýsir Jörundur yfir að hann hafi tekið að sér stjórn landsins, en einungis „þar til að regluleg landsstjórn er ákvörðuð“.

Auglýsinguna frá 11. júlí 1809 má sjá hér.

Jörundur var í för með breska sápukaupmanninum Samuel Phelps og fleirum á skipinu Margaret & Anne. Þeir reyndu að fá leyfi til verslunar á Íslandi, en stiftamtmaðurinn, Trampe greifi, bannaði Íslendingum að versla við kaupmanninn. Endaði það með því að Jörundur hneppti Trampe í varðhald með hjálp skipverja og tóku þeir í kjölfarið öll völd á Íslandi í sínar hendur. Phelps fól túlki sínum, Jörundi, stjórn landsins meðan hann sjálfur stundaði viðskipti sín. Jörundur var mikill hugsjónamaður sem vildi stjórna í anda þeirra hugmynda er ríktu í Evrópu í kjölfar amerísku og frönsku byltinganna. En „íslenska byltingin“ varð ekki langlíf og seinni hluta ágústmánaðar var Jörundur settur af og allar auglýsingar og aðgerðir hans ógiltar.

Auglýsingarnar eru á sýningunni Fortíðarraddir. Handrit, prent og persónulegar heimildir sem nú stendur yfir í safninu.

Fyrri kjörgripir


Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall