Lbs 36 4to - Kennidómsins spegill - Kennslubók í prédikarafræðum eftir Pál Björnsson í Selárdal

„Hvör ertu? Eg er hrópandi rödd í eyðimörku, segir skírarinn […] Á daginn er eg þess hrópandi Guðs rödd. Guð hrópar fyrir mig, nú hart, nú sagt, nú sætt, nú súrt, stundum lokkar hann og huggar, stundum hræðir hann og hótar, það er mér snart nóg. Eg hrópa af öllum krafti. Mín tár hrópa. Svo segir Paulus. Eg hefi ei aflátið að áminna yður með tárum. Mínir svitadropar hrópa. Hvað oft sér þú í vandlætisandanum blóð undir augunum?“

Þannig hefst kaflinn Um prédikara verk í ritinu Kennidómsins spegill eftir Pál Björnsson í Selárdal sem er kjörgripur safnsins í janúar. Páls er einna helst minnst fyrir framgöngu hans gegn fólki sem grunað var um meðferð galdra, alls sjö einstaklingar voru brenndir á báli fyrir tilstuðlan hans. En saga Páls inniber meira en eingöngu galdrafárið, eitt af því sem hann honum var umhugað um var menntun presta. Til að mynda taldi hann að prestar ættu að vera læsir á bæði hebresku og grísku, eins og hann skrifaði í bréfi árið 1682 um þá presta sem skorti kunnáttu í þeim málum og urðu að reiða sig á þýðingar: „Líkir sýnast mér þeir Doctorar og öldungar þeim sem jórtra verða með annarra jöxlum, og fljúga með annarra vængjum“.

Fyrst prestarnir gátu ekki lesið hebresku og grísku og eldri þýðingar voru ekki nógu góðar fyrir Pál, þá hófst hann handa við að þýða hluta biblíunnar sjálfur úr hebreska frumtextanum, mikið af þeirri vinnu er varðveitt á handritasafni, til dæmis í handritinu Lbs 1 fol þar sem er þýðing Páls á spádómsbók Jesaja og Jobsbók ásamt mál- og guðfræðilegum skýringum.

En Páll lét ekki þar við sitja, prestarnir áttu líka að geta flutt sómasamlegar prédikanir. Þess vegna skrifaði hann kennslubók í prédikunum, Kennidómsins spegil, með undirtitilinn Um prest og prédikun. Þar leggur hann upprennandi prédikurum línurnar og það ætti að vera óhætt að áætla að ungur piltur sem var í námi hjá Páli eitt misseri laust eftir 1680 hafi lesið þetta rit, en það var Jón Vídalín, síðar biskup og annálaður prédikari.

Kenndiómsins spegill hefur verið víða lesinn, eins og álykta má vegna fjölda þeirra handrita sem geyma textann. Hér er eitt þeirra dregið út fyrir sviga, Lbs 36 4to. Hin eru Lbs 343 4to, Lbs 157 8vo, Lbs 822 8vo, Lbs 1522 8vo, Lbs 2347 8vo og JS 280 4to,

Gefum að endingu Páli aftur orðið, hvar hann skrifar um „skriftríka prédikun“:

„Segir ekki Jesús: Sérhvör skriftlærður til himnaríkis uppfræddur er líkur þeim hússföður, er veiðir úr sínum fésjóð gamalt og nýtt. Hvað er gamalt? Móses og spámennirnir. Hvað er nýtt? Allt Nýja testamentið. Á þessum urtum ætlaði eg þú mundir feitur orðinn innanundir höklinum, og bera þann fésjóð í þínu hjarta, en ekki láta það vera myglað á hillunni fyrir ofan þig í pappírunum. Sá prestur, sem ei daglega iðkar Heilaga ritningu sem verður, hann er sem Sódómæ epli fríð tilsýndum, en fúin innan, og enginn af oss er svo lærður, að upp á sig megi treysta. Fiskurinn deyr á þurru; mín sál er steindauð, ef hún lifir ei í blóðfljótum Jesú Kristí, í hvörjum öll Heilög ritning framrennur, og ekkert er í henni, sem ei auðsýni mér Jesúm, minn Lausnara. Mig hressir meir eitt hennar orð en allar þulbarðaútleggingar sumra.“

Sýning stendur nú yfir í safninu í tilefni af því að 400 ár eru liðin frá fæðingu séra Páls Björnssonar í Selárdal.

Heimildir:

Páll Björnsson: „Kenndiómsins spegill“ Kolbeinn Þorleifsson bjó til prentunar og ritaði inngang og eftirmála. Andvari 1977. Bls. 101-120.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall