Stúlkan frá Tungu eftir Indriða Einarsson

Kjörgripur mánaðarins er leikritið Stúlkan frá Tungu eftir Indriða Einarsson. Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi leikritið í Iðnó annan í jólum árið 1909 undir leikstjórn Indriða. Handrit leikritsins er með rithönd Indriða og er eina þekkta eintakið af leikritinu, það kom aldrei út á bók. Leiksýningin vakti ekki mikla lukku meðal áhorfenda og einungis sýnt sjö sinnum á ríflega mánuði en Stúlkan frá Tungu var leikin í síðasta sinn þann 30. desember 1920.  

Undirtektir gagnrýnenda voru sömuleiðis dræmar eins og má lesa í nafnlausri umfjöllun sem birtist í Þjóðólfi á gamlársdag 1909:  

„Byggingu leiksins er allmjög ábótavant frá listarinnar sjónarmiði, og frásögnin nokkuð sundurlaus og í molum. Það spillir og fyrir, að leikurinn er um of slitinn sundur með tíðum leiktjaldabreytingum, sem hér taka ávallt langan tíma; sumir eða flestir þættirnir – en þeir eru alls fimm – eru tvískiptir. Leikurinn tókst og ekki vel frá leikendanna hálfu, að minnsta kosti ekki í fyrsta skiptið. Það kveld var og mjög óvistlegt í leikhúsinu sakir súgs og kulda, og fannst því áhorfendunum leikurinn tilkomuminni og langdregnari en ella, því það skiptir miklu, er menn koma saman sér til skemmtunar, að allra þæginda sé ekki vant. En áhorfendurnir í leikhúsi bæjarins eiga ekki þeim að venjast. Þar er flest svo óþægilegt, sem frekast getur verið.“ 

Þrátt fyrir að hafa eingöngu starfað hjá Leikfélagi Reykjavíkur var safn Indriða varðveitt í Þjóðleikhúsinu í áraraðir, enda var hann oft kallaður faðir Þjóðleikhússins. Gögnin, sérstaklega handritin og hlutverkabækurnar, eru bæði merkt Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu. Þjóðleikhúsið ánafnaði Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni einkaskjalasafn Indriða árið 2018 og er það varðveitt í Leikminjasafninu (Lbs 2018-20).  

Lýsandi samantekt á innihaldi einkaskjalasafns Indriða má finna á heimasíðu Leikminjasafnsins.

Fyrri kjörgripir


Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall