Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Háskóli Íslands efla saman opin vísindi

24.03.2022

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands undirrituðu á dögunum nýjan samstarfssamning milli Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Háskóla Íslands, en safnið er þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands samkvæmt lögum nr. 142/2011.  

Endurskoðun samningsins var unnin á vegum samstarfsnefndar Lbs-Hbs og HÍ með aðkomu sérfræðinga beggja stofnana. Meðal áhersluatriða er að efla samstarf samningsaðila, vinna að markmiðum stjórnvalda um opinn aðgang að rannsóknaritum og rannsóknagögnum og að safnið komi á fót rannsóknaþjónustu fyrir háskólasamfélagið, m.a. til að miðla upplýsingum um opin vísindi og auðvelda birtingar í opnum aðgangi. Þá er áhersla á að efla upplýsingalæsi meðal nemenda og bæta aðgengi að rafrænum safnkosti m.a. í kennslukerfi skólans. 

„Háskólabókasafn er hjarta hvers háskóla. Öflugt bókasafn með aðgengilegum upplýsingakerfum og gagnagrunnum er órjúfanlegur hluti af alþjóðlegum rannsóknaháskóla sem vill gera nemendum sínum kleift að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag. Samningurinn er staðfesting á gagnkvæmum vilja og skilningi á mikilvægi samstarfsins undanfarna áratugi og til framtíðar,“ segir Jón Atli Benediktsson.

Samningurinn var undirritaður í háskólaráðsherbergi Aðalbyggingar. Efri röð: Fulltrúar í samstarfsnefnd HÍ og Lbs-Hbs, þeir Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ og Róbert Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs HÍ,  Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfjafræði fulltrúi HÍ í stjórn safnsins og Guðrún Tryggvadóttir, sviðsstjóri þjónustu og miðlunar á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Fremri röð frá vinstri: Jón Atli Benediktsson rektor og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður. Myndina tók Kristinn Ingvarsson.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall