„Halldóra“ Biblía kennd við Guðbrand Þorláksson biskup á Hólum, eintak Halldóru dóttur hans

Á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eru varðveitt níu eintök af Guðbrandsbiblíu, sem var prentuð árið 1584. Hún er fyrsta heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku og er kennd við Guðbrand Þorláksson (1541–1627) biskup á Hólum. Talið er að hún hafi verið prentuð í 500 eintökum.

Eitt þeirra eintaka sem er í eigu safnsins á sér merkilega eigendasögu. Neðst á titilsíðu hennar hefur verið ritað: „Þessa bók gefur Halldóra Guðbrandsdóttir Gísla Magnússyni, óskandi honum hér með eilífrar gleði lífs og sálar fyrir Jesum Christum. Amen. Anno 1625. September.“

Halldóra þessi var dóttir Guðbrands biskups, fædd árið 1573 og dó 1658. Hún var ógift og barnlaus, en stýrði Hólastað um árabil eftir að faðir hennar hné niður árið 1624 og var rúmfastur eftir það.

Bókina gaf Halldóra hinum fjögurra ára Gísla Magnússyni (1621–1696) lögmannssyni sem síðar varð sýslumaður í Rangárþingi. Var hann talinn vel lærður og margfróður, kallaður Vísi-Gísli eða Lærði-Gísli. Hver veit nema bókagjöfin frá Halldóru hafi átt þátt í að móta námsáhuga hans?

Bókin kom til safnsins frá Biblíufélaginu sem eignaðist hana árið 1989, en það var Helga Helgadóttir (1906–1993) sem gaf félaginu bókina. Hafði hún verið á heimili hennar í 40 ár en eiginmaður hennar, Eiríkur Einarsson (1907–1969) arkitekt hafði átt hana. Í bréfi sem Helga lét fylgja bókinni kemur fram að Eiríki hafi þótt afar vænt um bókina, „bar mikla virðingu fyrir henni og fór ávallt mjúkum og varfærnum höndum um hana og kallaði hana ævinlega „Halldóru“.“

Biblía Halldóru Guðbrandsdóttur er á sýningunni Pappírsslóð rakin sem opnuð verður í maí í Þjóðarbókhlöðu. Annað eintak Guðbrandsbiblíu má skoða á baekur.is.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Nonni. Brot úr æskusögu Íslendings. Eigin frásögn

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Perla Fáfnisdóttir - ungfrú Alísland

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Virkisvetur – Björn Th. Björnsson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall