Rannsóknasafnið IRIS opnað

15.06.2022

Miðvikudaginn 15. júní var rannsóknasafnið IRIS formlega opnað í Þjóðarbókhlöðu. Ávörp fluttu Sara Stef. Hildardóttir, verkefnastjóri IRIS sem opnaði vefinn, Berglind Fanndal Káradóttir, verkefnastjóri hjá RANNÍS, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar.

IRIS (The Icelandic Research Information System) er upplýsingakerfi sem byggir á hugbúnaðinum PURE frá Elsevier. Kerfið sýnir rannsóknarvirkni íslenskra háskóla og stofnana sem eiga aðild að því. Með opnun kerfisins eykst sýnileiki, yfirsýn og aðgengi að upplýsingum um rannsóknir á Íslandi og markar opnunin því ákveðin tímamót. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn rekur IRIS, en mennta- og menningarmálaráðuneytið keypti kerfið og fól safninu yfirumsjón þess.

Með IRIS gefst kostur á að skoða rannsóknarvirkni og samfélagslega dreifingu þekkingar sem verður til við rannsóknir á Íslandi. Kerfið gerir notendum kleift að skoða rannsóknarframlag einstakra stofnana, fræða-, lista- og vísindafólks sem og þátttöku þeirra í alþjóðlegu samstarfi. IRIS er upplýsingakerfi í þróun sem mun taka breytingum eftir því sem verkefninu vindur fram.

Við opnun eru allir háskólar landsins aðilar að kerfinu, auk Landspítala, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Stefnt er að því að allar opinberar rannsóknastofnanir verði aðilar að kerfinu innan fárra ára.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall