Styrkur úr Bókasafnasjóði

09.09.2022

Vinnuhópur íslenskra háskólabókasafna um upplýsingalæsi hlaut á dögunum 4.500.000 kr styrk úr Bókasafnasjóði til að hanna kennsluvef í upplýsingalæsi. Markmið verkefnisins er að efla starfsemi háskólabókasafna og samhæfa upplýsingalæsiskennslu á háskólastigi í samræmi við viðmið um æðri menntun og prófgráður á Íslandi (sjá Lög um háskóla nr 63/2006). 

Kennsluvefnum er ætlað að þjálfa nemendur í því að greina þörf fyrir upplýsingar, finna þær, meta og nota á skilvirkan og ábyrgan hátt. Þetta er í fyrsta sinn sem háskólarnir ráðast í samstarf af þessu tagi en aðilar að verkefninu eru bókasafn Háskólans í Reykjavík, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, bókasafn Listaháskóla Íslands, bókasafn Menntavísindasviðs HÍ, Heilbrigðisvísindabókasafn LSH og HÍ, bókasafn Háskólans á Akureyri og bókasafn Háskólans á Bifröst.  

Kennsluvefurinn verður birtur í opnum aðgangi með notkunarleyfi (CC BY 4.0) og þó svo efni hans sé einkum hugsað fyrir nemendur á háskólastigi mun hann líka gagnast framhaldsskólanemum og almenningi öllum. Áætluð verklok eru haustið 2023. 

Hilma Gunnarsdóttir sérfræðingur í upplýsingaþjónustu- og notendafræðslu er fulltrúi Lbs–Hbs í vinnuhópnum og Sigurbjörg Long varamaður.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall