Viðbrögð Gunnlaugs Briem við valdaráni Jörundar Hundadagakonungs 1809

Kjörgripur janúarmánaðar er ritgerð Gunnlaugs Briem sýslumanns (1773–1834), Quid sentimus? Quid faciendum? sem mætti útleggja á íslensku sem Hvað álítum vér? Hvað ber að gera? Gunnlaugur tók ritgerðina saman í kjölfar valdaráns Jörundar Hundadagakonungs (1780–1841) sumarið 1809.

Jörundur kom hingað til lands í júní 1809 sem túlkur í verslunarskipi Samuel Phelps sápukaupmanns. Þeir sáu sér leik á borði og afnámu dönsk yfirráð á Íslandi, handtóku F.C. Trampe stiftamtmann (1779–1832), og skipaði Jörundur sig þá „Íslands hæstráðanda til sjós og lands“. Fregnir af þessu athæfi bárust víða um land og voru landsmenn ekki á einu máli um hvernig bregðast ætti við. Einn þeirra var Gunnlaugur Briem, sem var þá 36 ára og hafði þá verið sýslumaður í Eyjafirði um þriggja ára skeið.

Gunnlaugur ákvað að taka saman ritgerð til að komast að skynsamlegri niðurstöðu um hvort embættismenn á Íslandi ættu að fara eftir skipunum Jörundar – óljóst var hvort Jörundur væri fulltrúi breskra stjórnvalda eins og hann hélt sjálfur fram eða hvort valdaránið væri alfarið á hans eigin vegum. Gunnlaugi fannst athæfi Jörundar a.m.k. afar einkennilegt og ræddi um hinn „afar kynlega herra Jörgen Jörgensen“ í ritgerðinni. Hann taldi mótspyrnu þó ekki koma til greina, enda ferðaðist Jörundur um í einkennisbúningi breskra sjóliðsforingja og bresk herskip væru innan seilingar sem gætu komið Jörundi til aðstoðar ef átök brytust út. Í ritgerðinni taldi Gunnlaugur m.a. að embættismenn gætu ekki rofið þann eið sem þeir höfðu svarið Danakonungi og ættu því ekki að starfa undir stjórn Jörundar. Hann sagði því af sér sem sýslumaður og lagði drög að brotthvarfi sínu úr embætti.

Ekkert varð þó af starfslokum Gunnlaugs, því að í ágúst kom breskt herskip hingað til lands. Þar kannaðist enginn við að Jörundur starfaði í umboði þarlendra stjórnvalda og var hann því  handtekinn, stjórn Danakonungs var komið á að nýju og Gunnlaugur hélt áfram sýslumannsstörfum sínum.

Ritgerðin er varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns undir safnmarkinu Lbs 197 fol., en þar er einnig að finna ýmis önnur skrif er tengjast ævi og störfum Gunnlaugs.

Félag um átjándu aldar fræði heldur málþing um Gunnlaug í tilefni af 250 ára fæðingarafmæli hans þann 14. janúar 2023.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Einkaskjalasafn Róberts Arnfinnssonar

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Tengdamamma eftir Kristínu Sigfúsdóttur

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Teikningar Gísla J. Ástþórssonar

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall