Gögn leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur afhent

12.01.2023

Þann 11. janúar 2023 fékk Leikminjasafnið merkilega gjöf frá fyrrum nemendum og kennurum leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur. Þessi góði hópur ánafnaði Leikminjasafninu hin ýmsu gögn sem tengjast starfsemi skólans. Athöfnin fór fram í fyrirlestrarsal Landsbókasafns á stofndegi Leikfélags Reykjavíkur sem fagnar 126 ára afmæli sínu um þessar mundir.

Leiklistarskóli Leikfélags Reykjavíkur var starfræktur í um áratug, 1959-1969. Gísli Halldórsson var skólastjóri fyrst um sinn, en Sveinn Einarsson tók við síðar og veitti skólanum forstöðu allt til lokunar. Undir lok sjöunda áratugarins var skólinn lagður niður til að þrýsta á þáverandi ríkisstjórn að opna ríkisrekinn leiklistarskóla.

Átta árgangar luku námi við skólann og um tíma var rekin bæði byrjenda- og framhaldsdeild. Á meðal nemenda voru Pétur Einarsson, Nína Björk Árnadóttir, Hákon Waage, Edda Þórarinsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir, Jón Hjartarson og Þorsteinn Gunnarsson. Kennarar voru á meðal annarra; Helgi Skúlason, Steindór Hjörleifsson, Helga Bachmann, Jón Sigurbjörnsson og Þórhildur Þorleifsdóttir. Námskráin var fjölbreytt en þar má nefna látbragðsleik, leiktúlkun, andlitsförðun, raddbeitingu og söng. 

Safnið inniheldur margt áhugavert s.s. ljósmyndir, námsögn, nemendaskírteini og umsagnir kennara en einnig leikskrár, úrklippur og greiðsluseðla fyrir skólagjöldum, sem voru 1000 kr. á mánuði árið 1967 eða tæpar 20.000 krónur miðað við verðlag í dag.

Skráning á safninu stendur yfir og bera gögnin safnmarkið LMÍ 2023/1. 


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall