Bergþóra Snæbjörnsdóttir hlýtur Maístjörnuna 2022

24.05.2023

Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni miðvikudaginn 24. maí. Rithöfundasamband Íslands stendur að verðlaununum ásamt Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2022 hlýtur Bergþóra Snæbjörnsdóttir  fyrir bókina Allt sem rennur.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„Ljóðin í Allt sem rennur virðast jafnvel hrjúf brot úr veruleikanum, en mynda ægifagra heild sem knýja lesandann ekki eingöngu til að líta veruleikann nýjum augum heldur einnig sjálfan sig og þar að auki til að takast á við hvort tveggja. Þau eru áhrifamikil ein og sér, standa sem snöggar svipmyndir, svíðandi frásagnir, fagrar frummyndir sem mynda víðáttumikla heild. Skáldið nær hér einstöku sambandi við lesandann á kraftmikinn og uppljómandi hátt. Allt sem rennur er verk sem ber töfrum ljóðlistarinnar hrópandi vitni.“

Bergþóra Snæbjörnsdóttir er fædd árið 1985 og ólst upp á Úlfljótsvatni í Grafningi. Hún er með bachelor gráðu í sálfræði og ritlist frá Háskóla Íslands og meistarapróf í Hagnýtri menningarmiðlun frá sömu stofnun.

Fyrsta ljóðabók hennar Daloon dagar kom út árið 2011. Árið 2017 gaf hún út ljóðabókina Flórída sem var m.a. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Maístjörnunnar. Skáldsagan Svínshöfuð kom svo út haustið 2019 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna auk þess að hljóta Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin fyrir bestu skáldsöguna. Síðast kom út ljóðsagan Allt sem rennur haustið 2022 hjá Benedikt bókaútgáfu. Brot úr bókum hennar hafa verið þýdd og birt í ýmsum bókum og tímaritum um allan heim.

Auk þess að sinna ritstörfum hefur Bergþóra sett upp gjörninga í samstarfi við Rakel McMahon myndlistarkonu undir formerkjum Wunderkind Collective og hafa verk þeirra verið sýnd á hinum ýmsu hátíðum og listviðburðum á Íslandi og í Evrópu.

Bergþóra býr og starfar í Reykjavík og er i sambúð með rithöfundinum Braga Páli Sigurðarsyni. Saman eiga þau börnin Úrsúlu og Eggert.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2022 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Arnór Ingi Hjartarson fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Emma Björk Hjálmarsdóttir fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.

Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar var opnuð af þessu tilefni.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall