Einkaskjalasafn Róberts Arnfinnssonar

Þann 16. ágúst hefði stórleikarinn Róbert Arnfinnsson orðið 100 ára og í tilefni þess eru kjörgripir mánaðarins tvö gögn úr einkaskjalasafni hans (LBS 2019/27 og LBS 476 NF) sem eru varðveitt á Leikminjasafni. Annars vegar ljósmyndaalbúm sem inniheldur myndir frá fyrstu leiksýningum Róberts og hins vegar fyrsta úrklippubókin sem hann setti saman, en hlutverkin og úrklippubækurnar áttu eftir að verða ansi mörg.

Róbert Arnfinnsson fæddist í Leipzig í Þýskalandi þann 16. ágúst 1923. Foreldrar hans voru Arnfinnur Jónasson skólastjóri og Charlotte Jónsson f. Korber. Þegar Róbert var fjögurra ára gamall flutti fjölskyldan búferlum frá Þýskalandi til Eskifjarðar. Ríflega áratug seinna færðu þau sig aftur um set og settust að í Reykjavík, Róbert stóð þá á sextánda ári.

Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla hóf Róbert nám við leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og tók þátt í leiksýningum hjá Leikfélagi Reykjavíkur á meðan á námi stóð. Frá byrjun skrásetti þessi tvítugi leikari allar leiksýningar sem hann tók þátt í, sú fyrsta á atvinnusviði árið 1943 var Vopn guðanna eftir Davíð Stefánsson, leikstýrt af Lárusi Pálssyni í Iðnó. Þessi siður fylgdi honum til æviloka. Á öskjunni er orðsending frá sjálfum stórleikaranum, líklegast skrifuð seinna:

„Þetta er kassi nr. 1. Hann geymir albúm með ljósmyndum úr fyrstu leikverkum sem ég tók þátt í meðan ég var í leiklistarnámi og eftir útskrift úr Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og Fyrstu úrklippubókina í þessu ævistarfi mínu, sem nefnist: Leikdómar! Róbert.“

Einkaskjalasafn Róberts er eitt hið stærsta sem Leikminjasafnið varðveitir og telur tæplega 100 öskjur af öllum stærðum og gerðum. Gögnin eru fjölbreytt; leikhandrit, leikverkaskrár, veggspjöld, ljósmyndir, dagbækur og upptökur (bæði á hljóði og mynd). Róbert lék ríflega tvö hundruð hlutverk á leiksviði á sinni löngu starfsævi en þá eru ekki talin með hlutverk hans í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum en þau töldu yfir 600 sem verður að teljast stórmerkilegt afrek. Því er ekki að undra að úrklippubækurnar hans séu um 80.

Róbert lést þann 1. júlí 2013 eftir að hafa gefið lífsstarf sitt til leikhússins.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Einkaskjalasafn Róberts Arnfinnssonar

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Tengdamamma eftir Kristínu Sigfúsdóttur

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Teikningar Gísla J. Ástþórssonar

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall