Gervigreind nýtt við lestur handrita og skjala

18.09.2023

Á síðustu misserum hafa komið fram stórstígar framfarir á sviði gervigreindar. Ein birtingarmynd þessarar þróunar er stafrænn lestur handrita og skjala. Þar má nefna austurríska forritið Transkribus sem rekja má til Evrópuverkefnanna TranScriptorium frá árunum 2013-2015 og READ  frá 2016-2019. Forritið getur lesið handskrifaðan texta og skilað af sér uppskrift hans á stafrænu formi. Það styðst við líkön sem hafa verið þjálfuð til að lesa ólíkar skriftartegundir frá ólíkum tímum og mismunandi landsvæðum.

Árið 2022 fékk Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) styrk frá Innviðasjóði RANNÍS til að búa til líkön fyrir íslenska skrift og var Emil Gunnlaugsson sagnfræðingur ráðinn til að sinna því verkefni í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Afraksturinn var tvö líkön: eitt sem nota má til að lesa íslenska handskrift frá seinni hluta átjándu aldar og það síðara fyrir íslenska handskrift frá miðbiki þeirrar nítjándu. Emil hlóð upp töluverðu magni mynda af íslenskum skjölum og handritum úr Þjóðskjalasafni Íslands og handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafni, lét forritið lesa textann og leiðrétti villur. Forritið getur nú lesið texta frá þessu tímabili með nokkuð góðum árangri, eða a.m.k. auðveldað lesendum lesturinn.

Forritið er aðgengilegt á www.transkribus.eu þar sem notendur geta skráð sig og fengið 500 síðna ókeypis inneign, hlaðið upp myndum af handritum og skjölum (t.d. af handrit.is, skjalasafn.is eða nota eigin myndir) og látið forritið lesa fyrir sig illæsilegan texta. Þessi nýja tækni gjörbreytir öllu aðgengi að íslenskum menningararfi.

Hér er hægt að skoða myndina stærri.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall