Erlend handrit úr bókasafni Willards Fiske

18.10.2023

Einn dyggasti stuðningsmaður Landsbókasafns var bandaríski auðkýfingurinn og bókavörðurinn Willard Fiske (1831–1904). Í lifanda lífi gaf hann safninu yfir 1.500 bækur en ánafnaði safninu síðan stóran hluta bóka sinna í erfðaskrá og taldi dánargjöf hans yfir 2.500 bindi, bækur sem margar hverjar eru dýrmætar og fáséðar. Barst gjöfin til safnsins fljótlega eftir andlát hans en var ekki tekin upp úr kössum fyrr en eftir flutning safnsins í Safnahúsið árið 1908. Nýlega uppgötvaðist að á meðal bóka sem safninu bárust úr bókasafni Fiskes voru fjögur erlend handrit, sem öll eru einstök.  

Eitt þessara handrita, Lbs 5336 8vo, er tíðabók skrifuð á bókfell, sennilega á 15. eða 16. öld. Í handritinu er að finna Krosstíðir og Maríutíðir á latínu. Tíðirnar eru: ad Laudes, Primam, Tertiam, Sextam, Nonam, Vespers, Completorium. Handritið er 69 blöð að lengd, 18,6 x 12,5 cm að stærð. Það er fagurlega skreytt og gyllt, víða eru skreyttir upphafsstafir og við upphaf hverra tíða eru skrautbekkir og heilsíðumyndir, alls sjö. Augljóst er að miklu hefur verið til kostað við gerð þessarar bókar. Hún er bundin inn í skinnband sem líklega er frá um 1900 en innfellt í það eru þó áþrykktir skrautfeldir úr eldra bandi. Sniðgylling er á blöðum handritsins, sem líklega hefur verið gerð á sama tíma og handritið var endurbundið. Ekkert er vitað um feril handritsins, skrifara þess eða eigendur, aðra en Willard Fiske. Að öllum líkindum á hún þó uppruna sinn í Evrópu, enda voru tíðabækur helst skrifaðar á svæðinu kringum Niðurlönd. Margar þeirra voru skrifaðar fyrir konur og algengt að þær fengju slíkar bækur í brúðargjöf frá eiginmönnum sínum. Fjöldi tíðabóka er varðveittur á söfnum erlendis en ekki er vitað um aðra heila tíðabók á Íslandi.

Tvö handritanna eru á ottómanskri tyrknesku / persnesku og tilheyra bókmenntahefð Ottómana Tyrkja. Þau eru skrifuð með arabísku letri og því lesin frá hægri til vinstri. Annað þeirra, Lbs 5337 8vo, inniheldur „Diwan“ (ljóðasafn) Münirî Amâsî (d. 1520) og mun líklega vera skrifað á 16. eða 17. öld.  Á blaði 146r, við upphaf textans, er skreyting með gylltum, bláum, grænum og rauðum lit. Auk þess eru gylltir rammar utan um texta handritsins. Í handritinu eru 146 blöð, 16,9 x 11,4 cm að stærð. Samkvæmt okkar heimildum er einungis vitað um þrjú önnur handrit sem innihalda ljóðasafnið. Er eitt þeirra í bókasafninu í Vatíkaninu, annað í landsbókasafninu í Vín og hið þriðja í háskólabókasafninu í Istanbúl.  

Í hinu handritinu, Lbs 5338 8vo, er ottómönsk tyrknesk – persnesk orðabók sem ber heitið „Tuhfe-i Şâhidî“ (Gjöf Şâhidîs) og var samin á árunum 1514–1515 af fræðimanninum  İbrahim Şâhidî (1470–1550). „Tuhfe-i Şâhidî“ er vel þekktur texti, varðveittur í fjölda handrita víða um heim. Um er að ræða eins konar kvæðaorðabók en slíkar bækur voru notaðar sem kennslubækur. Textinn byggir á kvæðinu „Mathnavi-ye Ma’anavi“ sem ort var af 13. aldar skáldinu Mevlana Celalüddin Rûmî. Handritið er talið skrifað á 17. öld. Texti þess er skrifaður með svörtu og rauðu bleki og utan um hann eru gylltir rammar. Utan rammans eru skýringar við megintextann. Á blaði 28r eru skreytingar í gylltu, bláu, rauðu, gulu og bleiku. Blöðin eru 28 talsins, 20,4 x 12,4 cm.

Pappírinn í þessum tveimur handritum hefur áferð sem er afar ólík þeirri sem þekkist í íslenskum (og vestrænum) pappírshandritum. Sterkja hefur verið borin á pappírinn og hann fægður með sléttum steini eða öðru verkfæri. Þannig fær pappírinn jafnt og slétt yfirborð sem gerir það að verkum að liturinn sem notaður er í skreytingarnar sekkur ekki inn í hann, eins og algengt er í íslenskum pappírshandritum. Skreytingarnar eru fíngerðar og vandaðar og augljóslega gerðar af mikilli kunnáttu.

Fjórða handritið, Lbs 5339 8vo, er guðspjallabók á armensku. Lokið var að skrifa við handritið árið 1682, á því eru tvær rithendur og það er ríkulega skreytt. Meginhluti handritsins, fram að blaði 135v, er skrifaður af Petros Dpir en hann lést frá verkinu og tók annar skrifari við að ljúka því, presturinn Kirakos. Fjórar heilsíðumyndir af guðspjallamönnunum eru á undan hverju guðspjalli og skrautbekkir við upphöf þeirra. Þá eru víða í handritinu skreyttir upphafsstafir með teikningum af fuglum sem litaðir eru með bleikum lit. Handritið er bundið inn í þrykkt skinnband sem ber öll helstu einkenni armenskrar bókagerðar. Á því má greina göt sem munu vera leifar eftir silfurskraut sem fest hefur verið á bandið, en slíkt er var algengt í armenskum handritum. Handritið er 182 blöð að lengd, 16,7 x 14 cm að stærð.

Ekki er vitað hvar eða hvenær Willard Fiske komst yfir þessi handrit, hvort hann hafi keypt þau eða fengið að gjöf. Þó er vitað að auk þess að vera mikill bókasafnari var Fiske áhugamaður um Egyptaland og egypska menningu og mun oft hafa ferðast þangað. Á ferðum sínum þar áskotnuðust honum ýmsir fornmunir sem hann ánafnaði Þjóðminjasafni Íslands.[1] Kann að vera að Fiske hafi eignast handritin, utan ef til vill tíðabókina, í slíkum ferðum. Hvers vegna Fiske ánafnaði Landsbókasafni þessi framandi handrit er önnur ráðgáta en óhætt er að segja að þau skeri sig úr öðrum safnkosti safnsins.

Öll handritin hafa verið mynduð og eru aðgengileg á handrit.is. Næstu daga má einnig líta þau augum í sýningarskáp í forsal Íslandssafns á 1. hæð.

 

Eftirtöldum aðilum er þakkað fyrir að veita ýmsar upplýsingar, aðstoð og góð ráð varðandi skráningu þessara handrita: Alessandro Gori, Eva-Maria Jansson, Irmeli Perho, Nicholas Kontovas, Sigurður Stefán Jónsson, Sonny Ankjær Sahl, Svanhildur Óskarsdóttir, Zara Pogossian og Özden Dóra Clow.



[1] Guðmundur J. Guðmundsson. „Eygpysku munirnir í dánargjöf Willards Fiske,“ Árbók Hins íslenzka fonleifafélags 1995. Bls. 49–74.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall