Lothar Grund fæddist í Schwerin í Þýskalandi 22. október 1923. Árið 1950 fluttist hann til Íslands þar sem hann kynntist hann Önnu Þorbjörgu Halldórsdóttur leikkonu. Þau giftu sig 25. júlí 1952 og eignuðust þrjá syni: Pétur Adolf Garðar, Atla Halldór og Alfreð. Fjölskyldan flutti til Þýskalands í lok fimmta áratugarins og settist að í Hamborg. Lothar lést 15. nóvember 1995. Frá 1951 til 1958 vann Lothar að meira en fimmtíu leiksýningum á Íslandi. Þær voru af öllum stærðum og gerðum, fyrir ýmis leikfélög, bæði áhugamanna og atvinnumanna. Metnaður hans, reynsla og listfengi hafði ómæld áhrif á íslenska leikmynda- og búningahönnun. Einkaskjalasafn Lothars (LMÍ 2022/6) sem spannar starfstíma hans innan íslenskra sviðslista er varðveitt í Leikminjasafni Íslands. Safnið inniheldur meira en þrjú hundruð sviðs- og búningateikningar, einnig nokkrar teikningar og pappírsfígúrur fyrir Rínargullið eftir Richard Wagner, verkefni sem ekki var sviðsett á Íslandi. Í tilefni af aldarafmæli Lothars sýna Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Leikminjasafnið úrval teikninga hans og setja þær í samhengi við íslenska sviðslist á sjötta áratugnum. Þrjár sýningar sem settar hafa verið upp í Þjóðleikhúsinu munu njóta sérstakrar athygli enda með hans sérstæðustu verkum, þrátt fyrir að sýningarnar séu mjög ólíkar og að þær hafi fengið mjög ólík viðbrögð, jafnt áhorfenda sem leikhúsgagnrýnenda.
Netspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.