Í biskupstíð Guðbrands Þorlákssonar (1541-1627) á Hólum verða tímamót í bókaprentun og útgáfu kirkjulegra rita þar sem hæst ber útgáfa Biblíunnar 1584 og sálmabókar 1589. Bókaútgáfa Guðbrands var lausn á þeim vanda sem siðskiptin báru með sér um að allt kirkjustarf væri á móðurmálinu og fylgdi þannig eftir fyrirmælum um framkvæmd helgisiða sem Kirkjuskipan Kristjáns III frá 1537 kvað á um.
Fyrri sálmabækur biskupanna Marteins Einarssonar 1555 og Gísla Jónssonar 1558 voru ófullnægjandi, með fáum sálmum í þýðingum sem fylgdu illa málfari og skáldskaparlagi en mynduðu þó mikilvægan grunn fyrir hinn nýja sálmasöng.
Með útgáfu Ein ný sálmabók árið1589 var því bætt úr brýnni þörf en þar má finna 343 sálma sem skipt er niður í sex meginkafla.
Ein af nýjungum sem Ein ný sálmabók bar með sér er að þá sáu Íslendingar fyrst nótur á prenti því þar má finna lög við 106 sálma og messusöngva. Við aðra voru settir lagboðar en á um 60 stöðum eru engar tilvísanir í hvað syngja skyldi. Úr þessu var bætt í 2. útgáfu 1619 þar sem nótur og lagboðar voru við alla sálmana. Að auki gaf Guðbrandur út messusöngsbók, Graduale, árið 1594 sem kom út lítið breyttur til loka 18. aldar. Í endurútgáfu sálmabóka um miðja 18. öld voru gerðar smávægilegar breytingar en í þeim útgáfum voru aðeins nótur við örfáa sálma.
Sálmalögin í Ein ný sálmabók 1589 mótuðu því þann kirkjusöng sem hélst nánast óbreyttur hjá þjóðinni í nær þrjú hundruð ár.
Netspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.