Ein ný sálmabók 1589

Í biskupstíð Guðbrands Þorlákssonar (um 1541-1627) á Hólum verða tímamót í bókaprentun og útgáfu kirkjulegra rita þar sem einna hæst ber útgáfu Biblíunnar 1584 og Sálmabókar 1589.

Breytingar innan kirkjunnar í kjölfar siðskiptanna kröfðust þess að söfnuðurinn syngi sálma á sínu móðurmáli í stað latínusöngs kaþólskunnar og var því brýn þörf á að þýða á íslensku helstu sálma lúthersku kirkjunnar. Ein ný sálmabók sem kom út á Hólum árið 1589 innihélt alls 343 sálma, þar af 106 með nótum, og með henni var safnaðarsöngur á íslensku orðinn að veruleika.

Sálmarnir í Ein ný sálmabók 1589 höfðu mikil áhrif á kveðskap og íslenska málsögu og áttu drjúgan þátt í varðveislu íslenskunnar. Lögin sem sungin voru við þá mótuðu síðan kirkjusöng næstu þrjú hundruð ára og verða mikilvægur þáttur íslenskrar tónlistarsögu. Meirihluti laganna kom úr þýskum og dönskum sálmabókum, þó mis mikið breyttum eftir þýðingar og aðlögun að íslenskum bragarháttum, einhver laganna komu frá latneska frumsálminum og uppruni einstaka laga er enn óþekktur. Flest lögin tóku margs konar breytingum í gegnum aldirnar og eru til í fjölda tilbrigða en einstaka lög hafa verið sungin nær óbreytt frá kynslóð til kynslóðar og ljóst að sumar laglínur lifa betur í minninu en aðrar.

Meðal jólasálmanna frá 1589 er Borinn er sveinn í Betlehem sem er þýðing á latneska sálminum Puer natus in Betlehem. Lagið kemur erlendis frá og er enn í dag sungið í upprunalegri mynd, nú við jólasálminn Oss barn er fætt í Betlehem, sem er sálmur nr. 32 í Sálmabókinni 2022.

Ein ný sálmabók 1589 kom út í 375 eintökum. Aðeins er vitað um þrjú eintök, öll óheil. Eitt eintak er varðveitt á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og er það nú ásamt nokkrum nótnahandritum á sýningunni „Sálmabækur 16. aldar“ á 1. hæð Þjóðarbókhlöðu.

Ein ný sálmabók er aðgengileg á baekur.is

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall