Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Nú stendur yfir sýning á verkum Lothars Grund í safninu og má þar m.a. sjá teikningar fyrir sviðsetningu Þjóðleikhússins á Lokuðum dyrum (Draußen vor der Tür) eftir Wolfgang Brochert árið 1954.

Lothar Grund var fæddur í Schwerin í Þýskalandi 22. október 1923. Árið 1950 flutti Lothar til Íslands í leit að nýjum tækifærum. Stuttu seinna kynntist hann leikkonunni Önnu Þorbjörgu Halldórsdóttur, þau giftust 25. júlí 1952 og eignuðust þrjá syni: Pétur Adolf Garðar, Atla Halldór og Alfreð. Fjölskyldan flutti til Þýskalands í lok sjötta áratugarins og settist að í Hamborg. Lothar lést 15. nóvember 1995.

Frá 1951 til 1958 vann Lothar að meira en fimmtíu leiksýningum á Íslandi. Þær voru af öllum stærðum og gerðum, fyrir ýmis leikfélög, bæði áhugamenn og atvinnumenn. Metnaður hans, reynsla og listfengi hafði ómæld áhrif á íslenska leikmynda- og búningahönnun.

Þann 18. september 1954 birtist eftirfarandi tilkynning í Morgunblaðinu um Lokaðar dyr en leikritið átti að frumsýna í Þjóðleikhúsinu seinna um veturinn: „Er það fyrsta þýzka leikritið sem Þjóðleikhúsið sýnir ... Leikstjóri þessa leikrits verður Indriði Waage, en þýzkur maður, Lothar Grund, hefur verið fenginn til að annast leiktjöldin.“

Lokaðar dyr fjallar um ungan þýskan hermann, Beckmann að nafni, sem snýr aftur til heimaborgar sinnar Hamborgar eftir stríð en ekkert tekur á móti honum nema lokaðar dyr og lokuð hjörtu samlanda. Lothar þekkti Hamborg vel og harmleik leikverksins á eigin skinni, bæði sögusvið og sálarangist, bróðir hans hafði fallið í stríðinu en Lothar særst. Þessi myrku öfl birtast ljóslifandi í leikmynd og búningum sýningarinnar. Efnistök Indriða Waage, Hallgríms Bachmann ljósahönnuðar og Lothars Grund voru expressjónísk, dimm og þung. Tómið virtist ætla að gleypa leiksviðið, líkt og aðalpersónuna.

Frumsýningin þann 30. október 1954 vakti hörð og ólík viðbrögð gagnrýnenda sem þó voru sammála um tvennt: Baldvin Halldórsson vann leiksigur í hlutverki Beckmanns og leiktjöld Lothars með afbrigðum góð. Lokaðar dyr var aðeins sýnt sjö sinnum fyrir 1.630 áhorfendur, þá væntanlega fyrir hálftómu húsi í flest skipti þar sem salurinn tók ríflega 650 einstaklinga í sæti á þessum tíma.

Einkaskjalasafn Lothars (LMÍ 2022/6), sem spannar starfstíma hans innan íslenskrar sviðslistar, er varðveitt hjá Leikminjasafni Íslands. Í tilefni af því að öld er liðin frá fæðingu Lothars hefur Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Leikminjasafn Íslands sett á sýningu úrval teikninga hans og sett þær í samhengi við íslenska sviðslist á sjötta áratugnum.

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall