Maístjarnan

verðlaun fyrir ljóðabók ársins 2023

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

15.05.2024 - 29.09.2024

Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni miðvikudaginn 15. maí. Rithöfundasamband Íslands stendur að verðlaununum ásamt Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2023 hlýtur Gyrðir Elíasson  fyrir ljóðabókatvennuna 

Dulstirni & Meðan glerið sefur

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„Ljóðin í ljóðatvennu Gyrðis Elíassonar eru hljóðlát, hlédræg, ásækin og jafn áhrifamikil og skáldið sem yrkir þau. En áhrif höfundarverks Gyrðis á íslenskar bókmenntir eru óumdeild og um leið svo samofin hugsun okkar að við tökum ekki alltaf eftir þeim. Yrkisefnin koma víða að: draumar og veruleiki tvinnast saman á látlausan hátt og eins náttúran og hið manngerða, gleði og sorg, húmor og depurð, sveit og borg, himinn og mold. Myndmálið er skýrt, tært og heillandi líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi og í þessum tærleika býr margt sem er satt, fagurt og mikilvægt. Skáldið notar ljóðlistina til þess að afhjúpa fyrir lesandanum hið dularfulla í hversdeginum sem hann sækir innblástur í á einlægan og hógværan en um leið margslunginn hátt. Vangaveltur tilvistarlegs eðlis og leit að tilgangi lífsins eru höfundi hugleiknar og mikilvægar en þau aldagömlu spursmál ganga í sífellda endurnýjun lífdaga og koma lesandanum því stöðugt á óvart. Ljóðverkið Dulstirni og Meðan glerið sefur er dýrmæt áminning um að hið fagra býr í einfaldleikanum og er aldrei langt undan.“

Gyrðir Elíasson fæddist í Reykjavík þann 4. apríl 1961. Hann er Austfirðingur að ætt og uppruna en ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í grunn- og framhaldsskóla. Um tíma bjó hann í Borgarnesi og á Akranesi, en seinna í Reykjavík, en hefur um árabil búið í Garði á Suðurnesjum.

Gyrðir hefur nánast alla sína fullorðinsævi unnið við ritstörf og hefur sent frá sér tugi bókmenntaverka af ýmum toga; ljóðabækur, smásögur, smáprósa, skáldsögur og þýðingar. Fyrsta útgefna bók hans, ljóðabókin Svarthvít axlabönd, kom út 1983, en frumsamdar ljóðabækur hans eru nú orðnar 18 talsins. Hann hefur einnig verið ötull ljóðaþýðandi og í tvígang hlotið Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir ljóðaþýðingar sínar.

Gyrðir hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir frumsamin verk sín, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 fyrir smásagnasafnið Gula húsið og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir sagnasafnið Milli trjánna. Verk hans hafa verið þýdd og gefin víða um heim og njóta vaxandi hylli. Nýverið kom út bók í Noregi um ljóðlist hans og nýjasta verkið, ljóðatvennan Dulstirni/Meðan glerið sefur, er væntanlegt í nokkrum þýðingum áður en langt um líður.

Þá má geta þess að nýverið hélt Gyrðir stóra sýningu á myndverkum sínum, en um talsvert skeið hafa myndir eftir hann birst á kápum bóka hans. Er óhætt að fullyrða að þar sýndi höfundurinn á sér enn eina hlið sem vakti verulega og verðskuldaða athygli.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2023 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Jakub Stachowiak fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.

Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar var opnuð af þessu tilefni.

Eldri sýningar og viðburðir

Allar sýningar
Jólaútgáfur

Jólaútgáfur

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Kveisustrengur

Kveisustrengur

Sýning í Safnahúsi

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall